Nýjast á Local Suðurnes

Landsnet Semur Við ÍAV

Landsnet hefur samið við Íslenska aðalverktaka um undirbúningsvinnu vegna byggingar Suðurnesjalínu, 220 kílóvolta (kV) háspennulínu frá Hraunhellu í Hafnarfirði að Rauðamel norðan Svartengis.

Verkið felst í stórum dráttum í slóðagerð, jarðvinnu og byggingu undirstaðna en línuleiðin er rúmir 32 kílómetrar og verða möstrin alls 100 talsins. Undirbúningsvinnan hefst um leið og aðstæður leyfa og skal verkinu að fullu lokið fyrir septemberlok 2016. Áformað er að reisa línuna sumarið 2017 og tengingu ljúki á því ári.

Undirbúningsvinna vegna Suðurnesjalínu 2 var boðin út í september 2015. Sjö buðu í verkið og átti ÍAV lægsta tilboðið að upphæð tæplega 320 milljónir króna en kostnaðaráætlun Landsnets hljóðaði upp á tæplega 390 milljónir.

Útboð á eftirliti með undirbúningsvinnunni hefur einnig farið fram. Verkfræðistofan Hnit var með hagstæðasta tilboðið og hefur verið samið við hana um eftirlit með framkvæmdum við Suðurnesjalínu 2.