Aldrei fleiri frávísunarmál á Keflavíkurflugvelli
Frávísunarmál á landamærum á Keflavíkurflugvelli eru 752 það sem af er þessu ári og hafa aldrei verið fleiri.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá Lögreglunni á Suðurnesjum sem horfir til þess að enn verði hægt að efla löggæslu og tollgæslu á Keflavíkurflugvelli. Þörf er á aðstöðu til greiningar á flugfarþegum sem lögregla hefur til skoðunar á landamærum. Sumum verður frávísað frá landinu en öðrum ekki.
Um langt árabil hefur lögreglu skort hér aðstöðu. Á stefnuskrá stjórnvalda er að bæta hér úr. Þá er vilji stjórnvalda til þess að taka í notkun andlitsgreiningartækni sem nýtast mun sérstaklega við eftirlit á innri landamærum. Gengið er út frá því að tollgæslan á Keflavíkurflugvelli fái myndgreiningartæki við skoðun flugfarþega sem grunur leikur á að feli fíkniefni innvortis, segir í tilkynningunni.
Lögreglustjóri væntir þess að ríkisstjórn Íslands styrki og efli landamæraeftirlit hér á landi á komandi kjörtímabili.