Dregið úr gosóróa
Virkni eldgossins í nótt var nokkuð stöðug framan að, en klukkan 5 í morgun dró úr gosóróa og samhliða því minnkaði sjáanleg virkni í miðgígnum, þeim gíg sem hefur verið virkastur hingað til. Enn eru þrír gígar virkir.
Í tilkynningu frá Veðurstofu kemur fram að þrátt fyrir minnkandi virkni í gígunum getur hraunflæði áfram valdið álagi á varnargarða. Í eldgosinu í júní brutu hrauntungur sér leið yfir varnargarð þrátt fyrir að verulega hafi dregið úr virkni á gossprungunni á þeim tíma.