Nýjast á Local Suðurnes

MND félagið verðlaunar nemendur úr Heiðarskóla og Njarðvíkurskóla

Nemendur 10. bekkjar tóku í annað sinn þátt í verkefninu Aðgengi að lífinu sem er verkefni MND félagsins og unnið með stuðningi Velferðarráðuneytisins.

Guðjón Sigurðsson, formaður MND félagsins og Arnar Helgi Lárusson, formaður SEM samtakanna, fara í grunnskóla og hitta nemendur 10. bekkjar til að efla skilning ungmenna á aðstæðum hreyfihamlaðra, að stuðla að bættu aðgengi hreyfihamlaðra með því að nemendur skoði lausnir á aðgengismálum og skapa þannig jafnréttisgrundvöll á milli hreyfihamlaðra og óhreyfihamlaðra. Hugmyndin er að með því að vekja ungmenni til umhugsunar um aðgengismál þá geti þau beitt sér fyrir úrbótum í framtíðinni.

njardvikurskoli verdlaun2

Einn hópur nemenda úr Njarðvíkurskóla var í efstu 5 sætunum í keppninni en yfir 100 myndbönd voru send inn. Þær Gunnhildur Aradóttir og Elsa Katrín Galvez áttu það myndband og mættu til hátíðlegrar athafnar í húsi Orkuveitu Reykjarvíkur þar sem forseti Íslands, hr. Ólafur Ragnar Grímsson, veitti verðlaunin. Þeirra myndband lenti í 5. sæti og fengu þær bæði peningaverðlaun sem og boðskort á Hamborgarafabrikkuna.

“Það var myndband frá nemendum í Hraunvallaskóla sem var í fyrsta sæti en nágrannar okkar í Heiðarskóla í Reykjanebæ áttu vinningsmyndband í 3. sæti.” Segir á heimasíðu Njarðvíkurskóla en þaðan eru myndirnar sem fylgja fréttinni einnig fengnar.