Nýjast á Local Suðurnes

Dæmi um að hitaveitureikningar hafi hækkað um tugi þúsunda eftir uppsetningu mæla

HS Veitur hafa undanfarin misseri unnið að uppsetningu á nýjum mælum, til mælingar á heitavatnsnotknun í íbúðarhúsnæði á Suðurnesjum, mælarnir koma í stað hemla sem veitan hefur notast við frá upphafi.

Samkvæmt heimasíðu fyrirtækisins er þetta meðala annars gert vegna þess að framleiðandi hemlanna er að hætta framleiðslu þeirra og að ný tegund af hemlum sem fyrirtækið gerði tilraunir með hafi reynst illa, verið óáreiðanlegir og bilanatíðni há með tilheyrandi óþægindum fyrir viðskiptavini.

Töluverð umræða hefur skapast á samfélagsmiðlum, meðal annars í hópnum “Íbúar Innri-Njarðvíkur” á Facebook, eftir að notendur fóru að fá reikninga frá HS Veitum fyrir heitavatnsnotkun nú um mánaðarmótin, auk þess sem nokkrir íbúar hafa haft samband við Local Suðurnes og lýst óánægju með nýju mælana og samskipti við HS Veitur vegna hárra reikninga.

Dæmi eru um að fólk hafi fengið reikninga sem hljóma upp á upphæðir sem svipa til ársnotkunar fyrir eins mánaðar tímabil.

“Ég fékk símtal frá Hs Veitum í dag og mér var sagt að frá 19.nóv væri noktun mín á heitu vatni orðin jafn mikil og ráðlagt væri að nota á heilu ári,” segir viðskiptavinur fyrirtækisins í hópnum “Íbúar Innri-Njarðvíkur”. Í umræðum við þráðinn kemur fram að fleiri hafi lent í svipaðri stöðu.

Þá er töluverð óánægja með samskipti við HS Veitur vegna málsins, fólk er ósátt við að upplýsingagjöf fyrir uppsetningu á mælunum virðist hafa verið af skornum skammti og aukin notkun hefur komið viðskiptavinum fyrirtækisins í opna skjöldu, þetta á aðallega við þá sem hafa snjóbræðslukerfi í innkeyrslu eða nota heita potta.

“Mælirinn var settur þegar enginn var heima og enginn ræddi við okkur varðandi stillingar á kerfinu. Það finnst mér vera aðfinnsluvert.” Segir meðal annars í fyrrnefndum umræðum.

Viðskiptavinur fyrirtækisins sem Local Suðurnes ræddi við segist einnig vera ósáttur við viðbrögð fyrirtækisins við fyrirspurnum vegna málsins, auk þess sem hann er ósáttur við þau úrræði sem í boði eru.

“Ég fékk reikning upp á um 100 þúsund krónur, fyrir tæpan mánuð og það eina sem er boðið upp á er greiðsludreifing. Það virðist ekki vera neitt annað í boði, manni var bara sagt að fá pípara, á eigin kostnað til að skoða þetta.”

Nauðsynlegt að húsráðendur skoði notkun

Á heimsíðu fyrirtækisins er að finna upplýsingar varðandi breytingarnar, þar er húsráðendum meðal annars bent á að ráfæra sig við píplagningarmenn til að ganga úr skugga um að hitakerfi virki eðlilega:

Þessi breyting á ekki að hafa í för með sér neina hækkun, gjaldskrá er ekki að hækka. Við verðlagningu á hitaveituvatni með hemlafyrirkomulagi er reiknað með 67,8% nýtingu á hámarksrennsli. Þeir viðskiptavinir sem hafa verið að nýta mögulegt rennsli í gegnum hemil 67,8% eða minna eiga að koma vel út kostnaðarlega séð við þessar breytingar. Þeir sem hafa nýtt mögulegt rennsli í gegnum hemil meira en 67,8% gætu komið til með að hækka ef þeir breyta ekki notkun sinni með einhverjum hætti.

Þar sem rennsli í gegnum mælana er ekki takmarkað með hemlun er nauðsynlegt að húsráðendur skoði notkun sína á heitu vatni og yfirfari hitakerfi sín til að koma í veg fyrir óþarfa notkun á heita vatninu. Bent er á þann möguleika að láta pípulagningarmenn yfirfara búnað og ganga úr skugga um að hitakerfi séu jafnvægisstillt til að tryggja sparnað og eðlilegan rekstur.