Nýjast á Local Suðurnes

FöstudagsÁrni – Evróvisíón- og snjómoksturspistill vikunnar

Mikið skemmti ég mér yfir ræðu Bessastaðabóndans á Eddunni sl. sunnudagskvöld. Guðni missti út úr sér að þátta- og kvikmyndagerð væri bara afþreying. Það virtist fara misvel í mannskapinn og Guðni var í vandræðum að ropa restinni af ræðunni út úr sér. Kallgreyið, þetta kemur hjá honum, en kvikmyndaiðnaðurinn veit núna að þetta er BARA afþreying og samkvæmt Guðna má gera miklu betur. Guðni greyið hefði alveg eins getað sagt kvikimyndaframleiðendum að þeir væru bótaþegar.

arni arna keflavikurn

Það mætti halda að íslenska þjóðin hefði verið að sjá snjó í fyrsta skiptið síðustu helgi miðað við flóðbylgju mynda á samskiptamiðlum. Ég tók alveg þátt í látunum enda var sunnudagurinn fallegasti dagur ársins til þessa. En til að eyðileggja stemminguna þá er það svo að snjómokstur borgarinnar réði ekkert við ástandið, enda mesti snjór frá 1938. Við jaðarúrhrökin sem búum í úthverfum 101 fáum seint og illa snjómokstur í götunum og enn og aftur var rutt hérna í Bláhömrunum að tilstilli íbúa. Nágranni minn hafði samband við félaga sinn sem mætti og ruddi og sá til þess að íbúar í götunni kæmust til vinnu á mánudeginum. Við búum við litla góða götu, en hérna er alltaf ófært í einhverja daga eftir góða snjókomu. Þetta á við fjölda gatna í hverfum borgarinnar. Ég vil taka það fram að ég er ekki að setja út á þá sem starfa við snjómokstur, heldur er það Dagur og co í ráðhúsinu sem höndla ekki álagið í þessu máli frekar en í öðrum málaflokkum.

Fyrri undanúrslitaþátturinn í undankeppni Eurovision var sýndur í beinni útsendingu sl. laugardag. Besta lagið í þættinum komst áfram og í raun öll lögin þrjú voru þau skástu í þættinum. En leikurinn er þannig gerður að það geta ekki allir komist áfram og flytjendur eru misjafnlega tapsárir. Það er jú eðli okkar að gera okkar allra besta og flestir hafa metnað til að fara alla leið. En það er greinilega erfitt að átta sig á að lagið sem maður er að gaula er lélegt og hefur ekkert að gera með hljóðblöndun. Aðstandendur eins lagsins sem ekki hlaut náðir landsmanna í símakosningunni vilja meina að lagið hafi ekki ómað í viðtækjunum okkar eins og til var ætlast. Lagið var bara leiðilegt alveg sama hvernig hljóðblöndunin skilaði sér.

Segið svo að borgarstjórnarmeirihlutinn kunni ekki að halda kostnaði á grunnþjónustu borgarinnar í lágmarki. Húsverðir sjá um langveik börn, ræstitæknar hafa einnig tekið að sér símsvörun og almenn skrifstoustörf. Starfsfólk í mötuneytum taka af sér prófyfirsetu og krakkarnir sjálfir kenna nú hvert öðru – komdu út í plús segi ég nú bara. Borgaryfirvöld eru svo með þetta. Spara í börn og unglinga, munið í síðustu viku fjallaði ég um að ungabörn hjá dagmömmum eru að nálgast 10 ára aldurinn þegar þau loksins komast inn á leikskóla, fara svo 15 ára í grunnskóla. Þessi hagræðing skilar sér án efa til að mynda í að greiða niður viðbyggingu við Borgarbókasafnið,en þar var áætlaður kostnaður 400 milljónir en stefnir óðfluga í einn milljarð. Nú ekki má gleyma framtakssemi Sóleyjar Tómasdóttur sem krafðist breytinga á ráðhúsinu og lét brjóta niður veggi til að geta unnið í opnu nútímalegu vinnuumhverfi. Breytingarnar kostuðu skattgreiðendur 500 milljónir, æi en svo var svo mikill hávaði að allir fengur Bose heyrnatól til að heyra eigin hugsanir. Þetta er makalaust frábær stefna, viljum við ekki meira af svona hagræðingu og gæluverkefnum?

Agaleg þröngsýni er í blindrafélaginu í Danmörku. Blindur maður í bæ einum er með blindrakött en fær ekki vottun um að dýrið sé aðstoðardýr. Ég verð að viðurkenna að tilraun mannsins er skemmtileg.Hann býr í fjölbýli þar sem gæludýr eru bönnuð. Húsfélagið vildi köttinn út en þá sagði kauði að um blindrakött væri að ræða. Málið hefur vakið athygli og blaðamaður leitaði svara hjá blindrafélaginu sem staðfesti að ekki væru til slíkir kettir. Dýrahald er bannað í blokkinni hjá mér, en ég er að spá í að fá mér tuttugu og koma fyrir í búrum víða um íbúðina. Hver hefur sitt nafn og þegar ég þarf að fara á salernið kalla ég nafnið á hamstrinum á baðherberginu og hann hoppar í hlaupahringinn sinn og ég geng á hljóðið. Þarna sparast mikið rafmagn þar sem OR fær ekki leyfi borgarstjóra til að lækka reikninginn í takt við hækkunina sem skellt var á borgarbúa í hruninu. Eru þetta ekki góð rök til dýrahalds?

Góða helgi