Nýjast á Local Suðurnes

Föstudagspitstill Árna Árna er pínkupons pólitískur og í styttra lagi

Hérna er einn stuttur pólitískur föstudagspistill

Kosningar eftir viku og það er farið að hitna í kolunum. Píratar taka á skarið, rjúfa íslenska stjórnmálahefð og boða flokka til stjórnarmyndunar. Þetta er auðvitað mjög sérstakt, það er kannski í lagi að stinga saman nefjum í leyni, svona áður en flokkar fá umboð þjóðarinnar á kjördag. Samfylkingin, sem mælist með um 7% fylgi voru fyrstir til að stökkva á vagninn. Össur hefur að vísu verið eins og ástsjúkur unglingur hluta kjörtímabilsins, eða frá því að Samfylkingin byrjaði að hrapa í skoðununarkönnunum. Hann hefur verið að biðla til pírata. Það er sérstakt að flokkur sem margt svo ekki fyrir löngu var nærri 30% en mælist með 7% eigi erindi í ríkisstjórn. Þjóðin hafnar Samfylkingunni ef þetta verður raunin á kjördag. Tökum dæmi, við erum með umsækendur um starf, einn skorar 25% í starfsviðtölum, en hinn umsækandinn skorar 7%. Hvern ber að ráða í starfið? Svarið er einfalt ekki satt?

arni arna keflavikurn

Örvæntingin er slík í baráttunni að það stefnir sældarlíf hér á klakanum strax eftir kosningar,ef marka má loforðaflauminn. Grunnframfærsla millifærð um hver mánaðarmót á hvern og einn óháð kjörum, fríar falskar tennur fyrir eldri borgara, við fáum nánast borgað fyrir að leita til lækna, vextir munu tilheyra fortíðinni, krónan tengd öðrum gjaldeyri og þar með þurfum við engar áhyggjur að hafa af efnahagsstjórninni, losum okkur við þá ábyrgð. Þingmennirnir þurfa ekki einu sinni að setjast í ráðherrastóla þar sem píratar boða utanþingsráðherra. Við erum að sigla inn eitt allsherjar partý. Meira segja börnin litlu, sem nýtt eru í pólitískum áróðri, nöppuð að borðinu með nammi sjá lausnirnar fyrir sér. Ég er bara byrjaður að strauja skyrtur og pússa skópörin, þetta lítur svo vel út að ég er viss um að það verði hérna sól og blíða á ársgrundvelli, best að fleygja nagladekkjum, þetta lofar svo góðu.

Áhugavert málið hans Gunnars Kristins sem vill vera skráður í nokkur trúfélög. Beiðni hans var hafnað, þrátt fyrir trúfrelsi í landinu. Það segir ekkert í stjórnarskrá um að maður megi ekki stunda „fjölkvæni“ þegar kemur að trúarfélögum, en þetta snýst víst allt um hvaða félag á að fá hlutdeild tekjuskatts. Já trúfélögin þurfa sitt, en það er sérstakt að það sé þá ekki hægt að velja hvaða félag dettur í lukkupottinn og fær greiðsluna – eða er fólk ekki velkomið í trúfélög nema það borgi ? Its all about the money.

Aftur að pólitíkinni, Reykjavíkurborg skuldar 200 milljarða, gef ykkur aðeins pásu til að anda að ykkur og meðtaka stöðuna – áætlað er að greiða niður skuldir um 13 milljarða á fimm árum þá verðum við komin niður í rúmlega 180 milljarða. Þvílíkur árangur, eða hvað finnst ykkur. Það er nefnilega ágætt að fólk doki við og hugsi áður en gengið er inn í kjörklefann. Meirihluti borgarstjórnar er myndaður af Samfylkingu, Bjartri framtíð, VG og Pírötum. Flokkunum sem eru að míga utan í hvorn annan núna og ætla sér að mynda ríkisstjórn. Viðreisn fær að vera með líka. Þessi óstjórn á borginni er orðið jafn þreytt og Landinn á sunnudagskvöldum. Ég hugsa með hryllingi til þess að þessir flokkar taki við fjármálum landsins.

Talandi um gáfulega borgarstjórnarmeirihlutan, hver kannast ekki við að vera fastur í umferð á álagstímum? Borgin stífluð í allar áttir, neyðarakstur nær ómögulegur, pirringur og smá árekstrar eru daglegt brauð og tala nú ekki um ástandið á gatnakerfinu. Sigríður Andersen, þingmaður fór á fund borgarfulltrúa til að ræða ástandið. Hún bauð fram krafta sína til að gera allt sem hún gæti til að fá fjármagn í samgöngur í borginni – því var hafnað af meirihlutanum í borginni, töldu það ekki nauðsynlegt en vilja frekar fjármagn í almenningssamgöngur. Hvaða borgarstjóri og hans meirihluti hafnar fjármagni í samgöngur? Þetta mál hlýtur að vera einstakt á heimsmælikvarða.

Góða helgi