FöstudagsÁrni á ljúfum nótum
Föstudagspistillinn er frekar á ljúfu nótunum að þessu sinni, enda komið sumar og flestir búnir að rífa fram grillin og hvítvínið komið í kælinn.
Pínu vandræðalegt að aka niður sjálfan Ómar Ragnasson. Þennan mæta mann sem þjóðin dáir og stendur í mikilli þakkarskuld við. Ómar lenti í því atviki að verða fyrir bíl. Sem betur fer hristi snillingurinn það af sér eins og allt annað, enda í formi á við táning. En þegar ég las að í lagi var með hann andaði ég léttar. Það kom samt upp í huga mér atriði úr grínþætti. Þar voru tveir félagar á rúntinum og annar þeirra þekki allflestar stjörnurnar. Allt í einu kemur dynkur á bílinn, annar þeirra opnar hurðina – þú keyrðir á Bjössa bollu !
Kim Kardashian er ómeidd eftir að Ásdís Rán nauðlenti þyrlu þar sem viðvörunumarljós kveiknuðu vegna of mikils magns af silikoni innanborðs.
Garðurinn, minn gamli heimabær er greinilega heitasti staðurinn. Ekki nóg með að vera besti valkosturinn til að búa á á Suðurnesjum, heldur hefur Krístín Júlla unnið tvisvar sinnum Edduna, Of Monsters and Men hlotið íslensku tónlistaverðlaunin, Einar Mikael töframaður er ættaður þaðan (langafabarn Sveins Árnasonar frá Gerðum) tveir þingmenn, þau Ási Friðriks og Oddný Harðardóttir sem er í formannsframboði í Samfylkingunni og nýtur sem betur fer mest stuðnings meaðal flokksfélaga, bíðið aðeins, er að anda að mér – þá stefnir í að Garðinn eignist forseta Íslands. Maggi í Texasborgurum er Garðbúi. Það liggur fyrir að ég verð að pakka og flytja á fornar slóðir, Garðurinn er suðupotturinn. Haldið þið að það verði ekki nice þegar Maggi okkar sest að á Bessastöðum og setur blikkandi neonskilti á Bessastaði. Það verða engir helv… Texasborgarar, það verða forsetaborgarar með fesku Garð-ívafi.
En svo reif ég upp úr töskunum aftur, Ólafur Ragnar Grímsson forseti lýðveldisins stal senunni og tilkynnti framboð. Ólafur á það skilið hjá þjóðinni að njóta góðs stuðnings í sjötta skiptið. Það kom mér á óvart hvað fjölmiðlafólk var allt að því dónalegt við forsetann á blaðamannafundinum. Gremja vinstri manna logar eftir ákvörðun hans. Vinstri menn geta á engan hátt fyrirgefið Ólafi fyrir að slá á fingur vinstri stjórnarinnar meðal annars varðandi ICESAVE. Við getum loksins þakkað mótmælendum fyrir gott framlag í þágu þjóðarinnar, án þeirra hefði Ólafur ekki gefið kost á sér.
Kim Kardashian er grútskítug í framan á BSÍ kjamsandi á sviðakjamma
Dramatísk spenna í Reykjanesbæ þegar kröfuhafar tilkynntu vilja til viðræðna fimm mínútum fyrir örlagaríkustu ákvörðun bæjarstjórnar. Fyrir bæjarstjórn lág afgreiðsla á að bænum yrði skipuð fjárhagsstjórn innanríkisráðuneytisins til að fara með fjármál bæjarfélagsins. Kjartan Már bæjarstjóri lýsti atburðarrásinni eins og í bandarískri bíómynd – enda hafa þar verið filmaðar bandarískar bíómyndir og bandaríski herinn mættur aftur á svæðið svo það er auðvitað bara skemmtilegt að hafa soldið kanalegan blæ á bæjarpólitíkinni líka. Ég get ekki betur séð en að Kjartan Már og félagar séu að ná árangri störfum sínum sem er frábært. Suðurnesin hafa fengið góðar spár um uppvöxt og þróun á komandi árum og þá skiptir miklu máli að bæjarfélagið sé sterkt. Baráttukveðjur í Reykjanesbæ – you can do it Nicky, ef mér leyfist að vitna í bandaríska bíómynd.
Samkvæmt nýjustu upplýsingum er Kim Kardashian á Laugareginum og er með hiksta eftir sviðaátið.
Ég er ekki frá því að hann sé með djammviskubit gaurinn sem fannst út á Granda skólaus og jakkalaus. Hann skrapp á djammið á Suðurnesjum og endaði út á Granda án þess að hafa hugmynd um það hvernig það atvikaðist. Þetta kalla ég alvöru djamm, margir hafa að vísu rankað við sér í öðru landi eða endað á þjóðhátíð. Þegar ég heyri svona fréttir eða sögur þá hugsa ég oft hvað ég bara kann ekki að vera flippaður, en þakka samt fyrir það í leiðinni. Ég vona að það hafi verið gaman hjá kauða, hann sér það á Visakortsyfirlitinu, það ætti að fylla í eyðurnar.
Kim Kardashian er núna í Lífstykkjabúðinni að sjoppa ömmunaríur – íslendingar fylgjast grannt með, hvaða lit hún velur.
Ég verð að biðja heiðurskonuna Rósu Ingólfsdóttur afsökunar. Ég hélt hreinlega að þessi elska væri látin, hún bara hvarf af yfirborði jarðar. Rósa var svo vinsæl á mínum sokkabandsárum. Hún birtist á sjónvarpsskjáum landsmanna sem þula og kom víða fram og það lak af henni sjálfsöryggið og kynþokkinn – það muna allir eftir henni í rósabaðinu fræga. Þetta var svipað og þegar pabbar landsins voru límdir fyrir framan viðtækin þegar Bryndís Schram var með stundina okkar. Rósa reis upp frá dauðum í vikunni með pistli um líkamsræktaráráttu kvenna og vill að hinu mjúku fallegu línur íslenskra kvenna fái frekar notið sín. Hæ Rósa segi ég nú bara, ég hef saknað þín.
Það eru ótrúlegustu hlutir sem fjallað er um í fjölmiðlum vestanhafs. Einn slíkur tók fyrir á dögunum typpið á Degi B. Eggertssyni, borgarstjóra. Þar var sagt að hann fylli vel út í gallabuxurnar. Ég hálf roðnaði fyrir hans hönd. Leiðilegt að vera stjórnmálamaður og það bara fjallað um typpið þitt. Núna er búið að gera þetta erfiðara fyrir kallgreyið, það hlustar engin næst þegar hann kemur einhversstaðar fram, það verða allir með augastað á slöngunni og hvernig hún rúmast í buxunum.
Yndislegasta frétt vikunnar var um hann Oliver Stefánsson frá Akranesi. Hann fermdist á dögunum og mætti á barnadeild Hringsins og gaf deildinni fermingapeningana sína. Litli bróðir hans hafði glímt við erfið veikindi og sótti þangað lækningu. Oliver tók eftir því að það skorti upp á leikföngin fyrir börnin og ákvað að eigin frumkvæði að gefa 100.000 kr. til kaupa á leikföngum. Þessi ungi og þroskaði drengur fær hrós vikunnar að þessu sinni – fallegt af honum.
Góða helgi og gleðilegt sumar