Nýjast á Local Suðurnes

Menningarminjadagurinn – Ókeypis í Kvikuna

Viðburðir sem tengjast menningarminjadeginum dreifast yfir allt sumarið

Kvikan, auðlinda- og menningarhús Grindavíkur heldur upp á Evrópska menningarminjadaginn á laugardaginn en þá verður ókeypis aðgangur að sýningunum þremur um saltfisk, jarðorku og Guðbergsstofu og lifandi leiðsögn. Tilgangur Evrópska menningarminjadagsins er að vekja athygli alls almennings á gildi menningararfsins og að skapa vettvang til þess að almenningur geti kynnst sögulegu umhverfi sínu.

Upphaf Evrópska menningarminjadagsins má rekja aftur til ársins 1985. Þá lagði Menningarmálaráðuneyti Frakklands til að Dagur sögulegra minja, sem þeir höfðu haldið árinu áður, næði til fleiri landa Evrópu. Fjölmargar Evrópuþjóðir svo sem Holland, Luxemburg, Malta, Belgía, Skotland og Svíþjóð hófu brátt að standa fyrir slíkum viðburðum. Evrópuráðið stofnaði opinberlega til Evrópska menningarminjadagsins árið 1991 með stuðningi Evrópusambandsins.

Allt frá því að til dagsins var stofnað á Evrópuvísu hefur gildi og mikilvægi dagsins vaxið með hverju ári. Fjöldi þátttökuþjóða hefur aukist með hverju árinu, frá ellefu þjóðum árið 1991 til allra fimmtíðu þjóðanna sem í dag eiga hlut að Menningarsáttmála Evrópu.

Evrópski menningarminjadagurinn verður haldinn hátíðlegur á Íslandi í ár, en þó með öðru sniði en gengur og gerist. Víðast hvar er menningarminjadagurinn haldinn á sama tíma í september en hér á landi munu viðburðir dreifast yfir allt sumarið og er því í raun um marga menningarminjadaga að ræða.