Nýjast á Local Suðurnes

Sigvaldi Arnar heldur áfram að styrkja málefni tengd börnum

Manna- og dýravinurinn Sigvaldi Arnar Lárusson hefur safnað rúmlega fjórum milljónum króna sem notaðar verða til að styrkja við verkefni sem snúa að börnum á Suðurnesjum. Sigvaldi safnaði rúmlega tveimur milljónum króna með því að ganga frá Reykjanesbæ til Hofsóss í sumar og svipuð upphæð safnaðist á kótilettukvöldi sem haldið var í nóvember og um 140 manns sóttu.

Sigvaldi hefur þegar nýtt hluta söfnunarfjársins og stutt fjárhagslega við bakið á barnafjöskyldum á Suðurnesjum, meðal annars hefur verkefnið styrkt unga stúlku Ólavíu Margréti sem greindist með krabbamein í auga og Rut Þorsteinsdóttur og Chad Keilen sem eiga 2 langveikar stelpur, þær Helenu og Emilíu.

Í aftari röð eru Stefán litli, Chad, Rut, Þór, Tinna Rut, Sigvaldi og Alexander. Í fremri röð eru þær systur Helena og Emilía. Ljósmynd: Umhyggjugangan - Berglind

Í aftari röð eru Stefán litli, Chad, Rut, Þór, Tinna Rut, Sigvaldi og Alexander. Í fremri röð eru þær systur Helena og Emilía.
Ljósmynd: Umhyggjugangan – Berglind

Nú hefur Sigvaldi ákveðið að styrkja Vinasetrið, Baklandið á Ásbrú, Öspina í Njarðvíkurskóla og skammtímavistunina Heiðarholt í Garði.

“Á næstu dögum mun ég afhenda forstöðumönnum þessara staða ýmsan varning sem þeir hafa sjálfir óskað eftir og svo mun ég bæta ríkulega í þann lista sem ég fékk frá þeim. Í Öspinni í Njarðvíkurskóla og á Heiðarholti í Garði mun ég aðstoða við að koma upp sérstökum skynörvunarherbergjum sem lengi hefur verið beðið eftir.” Segir Sigvaldi á Facebook-síðu Umhyggjugöngunnar.

Og hann bætti við í spjalli við Local Suðurnes:

“Þessir staðir sem ég er að styrkja núna eru að fá hluti sem þeir hafa sjálfir óskað eftir og þeim vantar. Allt hlutir til að vistmenn og börnin sjálf hafi afþreyingu.”