Nýjast á Local Suðurnes

Geoparkar á norðurslóðum funduðu í Grindavík

Reykjanes Geopark er þáttakandi í alþjóðlegu verkefni sem nefnist Drifting Apart. Verkefnið er styrkt af Norðurslóðaáætlununinni 2014-2020 (Northern Periphery and Arctic 2014-2020). Verkefnið stendur yfir á árunum 2015-2018 og er ætlunin að undirstrika og styrkja skilning á sameiginlegri jarðfræðiarfleið á norðurslóðum, og þær mörgu tengingar sem jarðfræðiarleiðin hefur við náttúru og menningu. Geoparkar skipta miklu máli í því samhengi.

Á heimasíðu Grindavíkurbæjar kemur fram að verkefninu sé m.a. ætlað að styðja við geoparka sem eru að stíga sín fyrstu skref, kynningu á nýjum vörum og þjónustu sem ætlað er að styrkja þá innan frá, m.a. með námsefnisgerð sem og að styrkja þá sem áfangastaði fyrir ferðamenn. Þá verður byggt upp sterkt samstarfsnet geoparka á norðurslóðum. Að verkefninu standa aðilar frá Norður Írlandi, Írlandi, Skotlandi, Noregi, Íslandi, Kanada og Rússlandi.

Í síðustu viku funduðu 14 fulltrúar þeirra geoparka og stofnana sem standa að verkefninu í Grindavík. Skemmst er frá því að segja að fundargestir voru í skýjunum með móttökurnar á Reykjanesinu. Þá lýstu þeir yfir mikilli ánægju með aðstöðuna sem byggð hefur verið upp í Grindavík sem þeim þótti henta vel til fundahalda sem þessara. Gestirnir gistu á Geo Hotel en funduðu í Gjánni, nýrri fundaraðstöðu í íþróttamiðstöðinni í Grindavík. Þá nutu þeir veitinga frá Salthúsinu og Hjá Höllu.

Fulltrúarnir ásamt fleiri starfsmönnum geoparkanna munu sækja Reykjanesið aftur heim snemma árs 2018 þegar hér fer fram alþjóðleg ráðstefna um árangur verkefnisins á vegum Reykjanes Geopark.