Nýjast á Local Suðurnes

Hver var tilgangslausasta frétt vikunnar að mati Árna Árna?

Útgangurinn á forsætisráðherranum okkar, er ekki spurning að hann fái stílista eða betri aðstoðarmenn. Ef hann er ekki í einum spariskóm og NIKE á hinni þá glennir hann sig með brotinn farsíma. Já Sigmundur Davíð komst í fréttirnar í vikunni fyrir það eitt að vera með brotinn farsíma. Það er ekki eitt heldur allt ef maður er í sviðsljósinu, ég sá nú ekki hvernig þetta átti erindi við landsmenn, en minnir óneitanlega á að það er fylgst með öllu, ég bíð eftir að Doritt brjóti nögl, það hlýtur að koma á forsíðu Séð & Heyrt.

local

Árni Árnason

Verður ekki örugglega sýnt beint frá ráðhúsi Reykjavíkur þegar Dagur B. Eggertsson fær afhend Nóbelsverðlaunin í fjármálafræðum ? Borgin rekin með 700 þúsund króna tapi á klukkustund og hann bjargar málinu með að hækka gjaldskránna í sundlaugum borgarinnar. Þessi snilld hlýtur að vera einsdæmi á heimsvísu. Nú fá borgarbúar að taka skellinn fyrir fjármálaóreiðunni frá 2010. Næst hækkar hann stöðumælagjaldið, mat í grunnskólum og sker niður í velferðarmálunum, sannur heiðursborgari hann Dagur, ég verð vonsvikinn ef hann fær ekki lof fyrir snilld sína. Mér varð svo um þegar hann fór að gorta sig af góðri fjármálastjórn borgarinnar í Eyjunni að ég nærri kjálkabrotnaði þegar skúffan á mér skall í sófaborðið. Eg er sannfærður um að borgarstjórinn er að glugga í ársreikning Garðabæjar og brosir hringinn.

Áfram með borgarstjórann, hann sendir víst borgarstarfsmönnum tölvupósta í hverri viku til að mæra sig og setja út á aðra. Ég vona að föstudagspistlarnir mínir séu ekki í takt við egóisma Dags. Ég velti fyrir mér hvar þetta endar, nýtt kennsluefni kannski ? „Ef Dagur besti borgarstjóri á fimm epli og gefur þér tvö, hvað á Dagur besti borgarstjóri mörg epli eftir?“

Gífulegur kostnaður mun falla á bændur með breytri reglugerð varðandi svínabú. En afsakið mig, ekki er ætlast til þess að skattgreiðendur greiði brúsann ? Nógu er mokað í óhagkvæman landbúnað svo ríkið á ekki að greiða þeim bændum aukalega sem stunda hálfgert dýraníð. Það er skelfilegt að sjá aðstæðurnar í sumum búunum og minna einna helst á hræðileg myndbönd úr dýraræktun erlendis frá. Manni grunaði ekki að dýr liðu sömu raun hér á landi, þessu þarf að ljúka strax.

Samfélagið tekur stöðugum breytingum og í vikunni stigu fram ung hjón og ræddu opið hjónaband. Já margir eru á því að með lengi líftíma okkar sé nánast vonlaust að hanga með sama og eina makanum út lífið. Frjálslyndið á sér margar myndir og fjölbreytileiki í kynferðislegri hegðun er í örum vexti, ef svo má að orði komast. Ég er mjög frjálslyndur en er íhaldssamur þegar kemur að þessum málum. Ég get ekki hugsað mér að vera í opnu sambandi. Ég væri nagandi neglurnar í vinnunni með hugan við hvað maki minn væri að gera. Kæmi heim og þefaði af rúmfötunum og makanum eins og hasshundur. Ég er eigilega leiðilega þröngsýnn þegar kemur að þessum málum, ég hef verið með prófíl á einkamal.is og hélt að ég gæti fundið ástina á netinu. Árangurinn hefur látið sitja á sér, en tilboðin sem streyma inn eru vægast sagt klúrin. Nokkrum sinnum hefur mér verið boðið í samræði með öðrum karlmanni á meðan frúin situr og horfir á. Fjölbreytileikinn, frelsið og dirfskan er mikil á þessu sviði og fólk alveg óhrætt að uppfylla langanir og þrár, ekki dettur mér til huga að dæma einn eða neinn þegar kemur að þessari iðju, en vil samt taka það fram að ég afþakkaði þetta boð með þökkum.

Tilgangslausasta frétt vikunnar var að Margrét Gnarr og Ásgeir Trausti eru nú skráð í samband á facebook. Marta smarta slær hver metið hvað varðar „ekki fréttir“ og tel ég að þetta hafi verið ein versta og ómerkilegasta frétt vikunnar – verri en fréttin um brotin síma forsætisráðherra.

gnarr

Það var ákvörðun ritstjóra að skella inn mynd af Margréti frekar en Ásgeiri – Árni fékk engu um það ráðið!

Mikið er ég sammála Sigmari fyrrum Kastljós-stjörnu með stöðumælana við Landspítalann. Fólk er að koma oftar en ekki við erfiðar aðstæður, sumir á hlaupum í neyð og þurfa að byrja að borga í stöðumæli. Sambýliskona hans kom með brennt barn og hljóp inn, en var sektuð um 5.000 kr. Vegna veikinda pabba sem stóðu yfir í 7 mánuði þá var ég mikið þarna og stöðumælaverðirnir voru á vappinu eins og maurar í kringum bílana. Er ekki í lagi bara að borgin tapi 701.000 á klst og láti fólk við sjúkrahúsin eiga sig.

Fékk smá sting í hjartað þegar lögreglumaður birti opinberlega launaseðilinn sinn. Ég er hreinlega orðlaus að það skuli vera fólk sem vill sinna þessum störfum fyrir þessi laun. Þeim er hótað nær daglega í vinnunni, koma að sjálfsvígum, heimiliserjum, þurfa að vaða inn í dópbæli, mæta á morðvettvang og alvarlegum bílslysum. Þess á milli er alltaf viss hópur sem hefur unun að því að drulla yfir lögreglumenn. Ég veit fyrir mitt leyti að ég gæti ekki sinnt þessum störfum og tek ég ofan fyrir því frábæra fólki sem hefur hugsjónina að leiðarljósi, en ekki launin og sinna þessu að vandvirkni. Ég hvet ríkisvaldið til að ná ásættanlegum samningum við lagana verði.

Bandarískri konu með barn var neitað um að taka leigubíl frá Flugstöð Leifs Eiríkssonar þar sem hún vildi far niður í Reykjanesbæ. Leigubílstjórinn var að bíða eftir feitari pakka, þar að segja ekki feitari konu, heldur túr í borgina. Já þetta kemur mér ekki á óvart þar sem að leigubílaþjónustan í Reykjanesbæ hefur nánast lagst af. Það eru allir hangandi við gangstéttarbrúnina við flugstöðina. Ég hef tvívegis farið á næturlífið í Reykjanesbæ í sumar þar sem ég þurfti á leigubíl að halda. Sem betur fer var gott veður í fyrra skiptið og ég gekk frá Hafnargötunni inn í innri Njarðvík þar sem ég var með gistingu. Seinna skiptið var á Ljósanótt og engan bíl að fá. Ég spurði í kringum mig og svarið var nei taxi þeir eru allir upp í flugstöð. Ég hóf göngu mína í brjálæðislegri rigningu og roki. Þegar ég var hálfnaður þá voru næríurnar orðnar rennandi blautar, ekki þurr þráður á mér og það sullaði í skónum. Þá hringdi ég og vakti systir mína sem klæddi sig upp úr rúminu til að pikka bróðir sinn upp úr drullupollunum. Það var eins og ég hefði dottið í sundlaug. Þjónustan er nær engin, það er mjög miður að leigubílstjórar sjái ekki hag sinn í að þjóna í svo stóru bæjarfélagi. Ég á mér þann draum að gefin verði út sérleyfi til leigubílaakstri bara á Suðurnesjum. Núna er ég til að mynda að troða sjálfum mér á framfæri á konukvöldi í Garðinum í kvöld og mun án efa væta aðeins tærnar. Verð örugglega að hringja og vekja einhvern til að sækja mig. Ég kannski auglýsi hér með eftir kúrufélaga í Garðinum, hver og hver og vill og verður, verður að lofa má ekki svíkja.

Ég þurfti að lesa tvisvar sinnum fréttina um innbrotsþjófinn sem setti sig í samband við fjölskyldu í Breiðholtinu sem hann braust inn hjá. Hann gleymdi uppáhalds peysunni sinni og vill hana til baka. Hann fer ekkert leynt í málið því hann vil koma og sækja hana. Lögreglan hefur ekki tíma í þessu tilfelli sem er einkennilegt þar sem þetta mætti kallast að fá hin seka á silfurfati. Bjóðið þjófnum að sækja peysuna og grípið kauða. Þetta tekur nokkrar mínútur. En hver fækkar fötum í miðju innbroti? Þetta er álíka gáfulegt og þjófurinn sem mætti með dömubindi fyrir augunum til að þekkjast ekki. Já sumir hafa minna af gáfunum en aðrir.