Nýjast á Local Suðurnes

Stefna á að halda opinn fund með heilbrigðisráðherra

Öldungaráð Suðurnesja stefnir að því að halda opinn fund um stöðu heilbrigðismála á Suðurnesjum með heilbrigðisráðherra, Svandísi Svavarsdóttur. Á síðasta fundi ráðsins kom fram að fjárframlög ríkisins til heilbrigðismála á Suðurnesjum séu langt frá því að mæta þörf, meðal annars vegna fólksfjölgunar.

Fjárlög fyrir 2020 gera ekki ráð fyrir auknu á fjármagni til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja og mikið vantar á að fjárframlög ríkisins til heilbrigðismála á Suðurnesjum jafnist á við framlög til annarra heilbrigðisumdæma og eru langt frá því að mæta þeirri fólksfjölgun sem orðið hefur á Suðurnesjum, segir í bókun ráðsins á síðasta fundi þess.

Þá eru líkur á því að fjárframlög til Heilbrigðisstofnunar Suðurnesja lækki á árinu 2021 þegar nýtt greiðslukerfi tekur gildi. Í því kerfi er meðal annars horft til þess fjölda sem skráður er á HSS, en líkt og greint var frá í gær hefur nokkur fjöldi íbúa á Suðurnesjum skráð sig á heilsugæslustöðvar á höfuðborgarsvæðinu.