Nýjast á Local Suðurnes

Deloitte kynnir Fast 50 og Rising star verkefnin á Ásbrú

Deloitte Technology Fast 50 verkefnið var fyrst kynnt til sögunnar árið 1995 í Bandaríkjunum og hefur síðan þá vaxið til um 40 landa. Verkefnið var keyrt í fyrsta skipti á Íslandi í fyrra þar sem fjölmörg íslensk tæknifyrirtæki í fjölbreyttri starfsemi tóku þátt. Um er að ræða árlegt verkefni og verður bráðlega opnað á ný fyrir skráningar, en þátttaka er öllum að kostnaðarlausu.

Verkefnið er í gruninn tvískipt. Annars vegar Fast 50 hlutinn sem er árlega útgáfu lista yfir þau 50 tæknifyrirtæki sem vaxa hvað hraðast m.t.t. veltuaukningar á sérhverju 4ja ára tímabili. Allir Fast 50 þátttakendur hérlendis eru jafnframt gjaldgengir á EMEA 500 listann og núna í fyrsta skipti á Global 100 listann, ef öll þátttökuskilyrði eru uppfyllt. Með verkefninu er íslenskum tæknifyrirtækjum þannig skapaður vettvangur til að vekja athygli á sér víða um heim.

Hins vegar er það Rising Star hlutinn, sem tekur til tæknifyrirtækja sem eru yngri en 4ja ára. Í þessum hluta eru tekjumögulegar lykilatriðið í stað tekjuaukningar fyrri ára. Allir þátttakendur þurfa að skila uppleggi að fjárfestakynningu. Ytri dómnefnd metur allar umsóknir og velur 4-6 þátttakendur sem þurfa að kynna sitt fyrirtæki á Fast 50 viðburðinum í lok október. Við matið horfir dómnefndin til þess hversu auðvelt er að skala fyrirtækið upp, reynslu og sérþekkingu stjórnendateymisins og hvort sýnt sé fram á mjög efnilega vaxtarmöguleika.

Í fyrra var fulltrúum þess fyrirtækis sem endaði í efsta sæti á Fast 50 listanum og fulltrúum tveggja Rising Star fyrirtækja boðið að kynna sig fyrir fjárfestum á Deloitte Entrepreneur Summit í Dallas. Að auki bauðst þeim að funda með Investa, Eyri Invest, Frumtaki, Nýsköpunarsjóði atvinnulífsins og Arion banka. Stefnan er sett á að gera enn betur núna í ár.

Verkefnin verða kynnt áhugasömum í Frumkvöðlasetrinu á Ásbrú þriðjudaginn 12. apríl klukkan 12 á hádegi, hægt er að nálgast nánari upplýsingar hér.