Nýjast á Local Suðurnes

Boðið upp á kaffiveitingar á lokadegi nafnakosningar – Bindandi verði þátttakan yfir 50%

Könnun um nýtt nafn á sameinað sveitarfélags Garðs og Sandgerðis stendur yfir í dag, laugardag, í Grunnskólanum í Sandgerði og í Gerðaskóla milli kl. 10:00 og 20:00. Íbúar taka þátt í því hverfi þar sem þeir búa, Sandgerðingar í  Grunnskólanum í Sandgerði og Garðmenn í Gerðaskóla. Allir íbúar með lögheimili í sveitarfélaginu fyrir 26. október sem eru fæddir árið 2002 eða fyrr geta tekið þátt.

Boðið verður upp á kaffiveitingar frá 10:00-17:00 í grunnskólunum á laugardag.

Valið stendur milli þriggja nafna: Heiðarbyggð, Suðurnesjabær og Sveitarfélagið Miðgarður, og hefur sveitarstjórn lýst því yfir að hún muni hlýta niðurstöðunni verði þátttakan yfir 50% og eitthvert nafnanna hljóti stuðning yfir 50% þátttakenda.

Markaðsrannsóknafyrirtækið Zenter kannaði áhuga íbúa fyrir könnuninni núna í vikunni. Í niðurstöðunum kemur fram að fast að 80% íbúa sem geta tekið þátt í nafnavalinu hyggjast greiða akvæði eða hafa þegar gert það.