Nýjast á Local Suðurnes

Reykjanesbær og Nexis í samstarf – Stuðlar að bættri heilsu og auknum lífsgæðum

Reykjanesbær og Nexis, sem er nýtt íslenskt heilbrigðisfyrirtæki, staðsett á Ásbrú í Reykjanesbæ hafa undirritað samstarfssamning um innleiðingu hugmyndafræði heilsueflingar hjá sveitarfélaginu.

„Mikið og gott starf hefur verið unnið hér í Reykjanesbæ undanfarin ár og því má segja að grunnurinn sem við byggjum á sé góður. Þess vegna hef ég alla trú á því að þetta verkefni muni heppast vel en það er mikilvægt að íbúar átti sig á að þetta er þeirra verkefni og þeirra aðkoma er nauðsynleg fyrir framgang og árangur þess,“ segir Jóhann Friðriksson, lýðheilsufræðingur hjá Nexis heilsueflingu, en fyrirtækið hefur skrifað undir samning við Reykjanesbæ um verkefnastjórn verkefnisins Heilsueflandi samfélag.

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri, sem undirritaði samstarfssamninginn fyrir hönd Reykjanesbæjar, skrifaði á dögunum undir samning við Embætti landlæknis  þar sem bærinn gerðist aðili að verkefninu. Stýrihópur hefur tekið til starfa en í honum sitja fulltrúar hagsmunaaðila s.s frá Fjölbrautaskóla Suðurnesja, grunn- og leikskólum, lögreglu, heilbrigðisstofnun Suðurnesja  o.fl.  Ráðgert er að innleiðing á hugmyndafræði heilsueflandi samfélags og ætlunargerð í samræmi við hana hefjist fljótlega.

Heilsuefling, eins og orðið ber með sér, gengur út á það að efla almenna heilsu íbúa með því að fyrirbyggja sjúkdóma, stuðla að forvörnum og veita stuðning til lífstílsbreytinga. Heilsuefling tekur meðal annars til félagslegra, andlegra og umhverfislegra áhrifaþátta heilbrigðis og fólki gert kleyft að hafa aukin áhrif á heilsu sína til góðs. Heilsuefling snýst ekki síður um að hafa möguleika á að velja hollt, óháð búsetu, aldri, kyni og félagslegri stöðu.

Jóhann segir brýnast nú að koma stoðum undir verkefnið, sem áætlað er að taki um fjögur ár en mikilvægt er að tryggja það að verkefnið skjóti rótum þannig að árangurinn sé varanlegur. Samstarfssamningurinn gildi í fimm mánuði og því þarf að vinna hratt. „Verkefni eins og þetta, að byggja upp heilsueflandi samfélag snýst um langtíma markmið. Lykilþættir hér eru þeir að verkþættir séu vel skilgreindir, fjármagn sé tryggt og að allir eigi hlutdeild í verkefninu.“ Jóhann leggur áherslu á að það sé mjög mikilvægt að þeir sem verði fyrir áhrifum af verkefninu verði með í að stýra ákvörðunartöku. „Ég tel Reykjanesbæ og íbúa vera vel í stakk búna til að gera þetta og ég tel okkur geta notað þetta verkefni til þess að efla andann í sveitarfélaginu, samheldnina og lífsgæðin.“