Skemmdarvargar gjöreyðilögðu bifreið í Reykjanesbæ

Bíll sem lagt hafði verið við verkstæði við Hrannargötu í Reykjanesbæ, var gjöreyðilagður af skemmdarvörgum á föstudagskvöld eða aðfaranótt laugardags. Þá var annar bíll sem lagt var á svipuðum slóðum einnig skemmdur.
Í samtali við DV kveðst eigandi bifreiðarinnar vera í sjokki yfir atvikinu.
„Ég er enn dofinn eftir þetta, maður veit ekkert hvað snýr upp og hvað snýr niður,“ segir hann.
Eigendur bifreiðarinnar greindu ítarlega frá skemmdarverkinu á Facebook-síðu sinni í gær. Þar biðla þau til allra sem kunna að búa yfir einhverjum upplýsingum um gerendurna í þessu máli að hafa hiklaust samband við lögreglu.
Þá hafa eigendurnir eftir lögreglunni í Keflavík að annar bíll hafi verið skemmdur við sömu götu á svipuðum tíma.