Nýjast á Local Suðurnes

Líkur á eldgosi á Sundhnúksgígaröð fara vaxandi

Aflögunarmælingar Veðurstofu sýna áframhaldandi landris og kvikusöfnun undir Svartsengi. Atburðarrásin heldur því áfram á svipaðan hátt og fyrir síðustu gos. Líkanreikningar sýna að magn kviku sem safnast hefur undir Svartsengi nálgast það magn sem fór þaðan í síðasta kvikuhlaupi og eldgosi.

þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni, en þar segir jafnframt að arðskjálftavirkni á Sundhnúksgígaröðinni hafi aukist hægt frá goslokum 9.desember 2024 en að virknin sé enn lítil. Þróunin síðasta árið sýnir að jarðskjálftavirkni fyrir kvikuhlaup hefur farið minnkandi með hverjum atburði. Því er möguleiki á að jarðskjálftavirkni verði ekki mikil fyrir næsta eldgos.

Þá segir að samkvæmt veðurspá sé von á umhleypingum út vikuna. Sunnan stormur með afgerandi hlýindum, rigningu og súld á sunnan- og vestanverðu landinu þegar líður á vikuna og um helgina. Slæm veðurspá gæti dregið úr næmni mælanetsins og þannig stytt viðbragðstíma vegna eldgoss.