Nýjast á Local Suðurnes

Hvað hefði gerst ef Árni Árna hefði fengið símtöl forsætisráðuneytisins í símann sinn?

Útvarpsmaðurinn Frosti skellti sér á miðilsfund í vikunni þar sem í ljós kom að framliðnir eru líka hræddir við kauða. Hann mætti miðlinum í sjónvarpi og sakaði hana um að féfletta trúgjarnan almenning. Ég hafði gaman af þessu enda öruggur heima í stofu. Ég verð að viðurkenna að ég myndi ekkert vilja enda upp á kant við Frosta. Það sem vakti athygli mína voru viðbrögð Önnu miðils, fannst þau léttvæg og ekki alveg máli hennar til stuðnings. Þá hafði Frosti á í samskiptum við hana á facebook en á fundinum sjálfum spurði hún „er einhver Frosti hérna inni?“ vitandi það að Frosti væri í salnum og sat beint fyrir framan hana. Hvernig gat hún ekki þekkt hann ? Búin að vera að spjalla við hann og það verður seint sagt að Frosti sé ekki huggulegur maður og ætti nú að vekja smá athygli. Hann hvatti hana til að fá sér heiðarlega vinnu, ég er nú svo auðtrúa að ég trúi á miðla, en auðvitað eruð þeir jafn misjafnir í störfum sínum eins og aðrir. Ég fór til Þórhalls miðils og það eru 50 mínútur sem ég fæ aldrei til baka og ekki heldur gjaldið sem ég greiddi.

Árni Árna

Árni Árna

Það var stuð hjá frúnni í Breiðholti sem fékk öll símtöl forsætisráðuneytisins hringiflutt beint í farsímann sinn. Starfsmaður í ráðuneytinu varð einhver „fingra“skortur á tungunni og stimplaði inn vitlaust númer. Ég hefði notið þess að svara fyrir forsætisráðuneytið og bókað Sigmund í barnaafmæli, samþykkt fjárveitingu til Bláa hersins og breytt pöntuninni á nýja ráðherrabílnum og beðið um einn bleikan takk !

Til hvers að eyða 1 milljón króna í magabandsaðgerð þegar hægt er að fara í sýndarmagabandsmeðferð ? Já dávaldurinn Jón Víðis getur nú dáleitt okkur til að ná árangri í baráttunni við aukakílóin. Ég segi bara hvar ertu búinn að fela þig Nonni ? Hann nam í Las Vegas og með einfaldri dáleiðslu hreinlega hrynja af manni aukakílóin. Þetta gæti leitt til þess að maður sjá tólin um jólin.

Góð þjónusta hjá Reebok Fitness, nú er hægt að skella sér í ræktina og beint í pottinn og fá hárlitun á meðan þreytan líður úr kroppnum í pottinum. Einhverjar hafa þó kvartað yfir því að liturinn sé grænn, en hey voðalegar kröfur eru þetta ? Það rífur vel í veskið fyrir konur að sækja klippun og litun á hárgreiðslustofum og margar hverjar hafa nú verið að stelast í hárliti sem seldir eru í matvælaverslunum með misjöfnum árangri. Það er því góð kjarabót að kaupa kort í ræktina með hárlitun í kaupbæti. Voðalega er erfitt að gera öllum til hæfis.

Guðmundur Steingrímsson þingmaður og fjölskylda fengu það staðfest í Hæstarétti í vikunni að ábyrgð á láni þýðir að það þurfi að borga af láninu. Fjölskyldan hefur, eins og alþjóð veit reynt að sleppa undan skuldbindingum við LÍN, en fengið það staðfest að sama þótt það er Jón eða séra Jón, lán er alltaf lán.

Hvaða smámunasemi er þetta þótt eldhústólin séu geymd á gólfinu hérna á Olís í Grafarvogi? Stelpugrey gripin við að skera brauðsneið með hnífi sem lág á gólfinu og fólk að kvarta yfir því. Ég horfi yfir á þessa Olís stöð hérna út um gluggan hjá og versla því talsvert þarna, ég get alveg staðfest það að þau skúra oft á dag yfir gólfin með grútskítugu vatni þannig að hreinlætið er viðunandi. Svo eru þau að vísu ekkert öll mikið fyrir að brosa og vera kammó en hey maður getur ekki fengið allt sem maður vill. Ég lenti í því þarna að mér var seld röng rúðuþurrka rándýru verði og eftir tölvusamskipti við skrifstofuna sem gaf ekki þumlung eftir varð ég að kaupa mér nýja hjá öðru fyrirtæki. Liðlegheitin eru ekkert kæfandi hjá Olís í Grafarvogi svo mikið er víst.

Ég hef ákveðið að fjalla ekki um rekstur borgarinnar að þessu sinni, föstudagspistillinn á hrista okkur í gang fyrir helgina, en ekki minningargrein.