Nýjast á Local Suðurnes

FöstudagsÁrni: Spurning um að opna vídeoleigu í Garði

Borgarstjóri með buxurnar á hælunum, ný videoleiga í Garðinum og úreld kynjaskipti í íslenskri tungu, eru meðal þess sem ber á góma í pistli vikunnar.

Á æskuslóðunum í Garðinum eru íbúar orðnir langþreyttir á léglegri net- og sjónvarpsþjónustu Símans. Hátt í tvöhundruð heimili búa við skelfilega þjónustu. Það gekk svo langt um helgina að stolt okkar Garðmanna, Edduverðlaunahafinn Krístín Júlla vill bjóða starfsfólki Símans í kósýkvöld og leigja bíómynd. Bara til sönnunnar á slæmri þjónustu. Ég var undrandi að sjá umfjöllunina á facebook um ástandið. Fyrir nokkrum árum fékk ég persónuleg símtöl frá vinum í Garðinum yfir þessu og sem starfsmaður Símans á þeim tíma lét ég kanna þetta. En símtölunum fjölgaði og ég skráði bilun á allt bæjarfélagið. Ég hélt að Síminn hefði séð sóma sinn í að bæta þjónustuna því nóg kosta þessi fjarskipti í dag. Það er spurning hvort Ástþór og Magga opni ekki aftur videoleigu í forstofuherberginu á nýjan leik og Garðmenn dusti rykið af VHS tækjunum? Það var þvílík bylting þegar þau hjónin færðu Garðinn inn í nútímann og opnuðu videoleiguna, þetta var geggjað. Versta við þetta var að við fjölskyldan áttum Beta-tæki og það var svo stórt að það tók hálfa stofuna og þyngdin minnti einna helst á píanó.

arni arna keflavikurn

Benedikt J. Fjármálaráðherra kastaði fram þeirri hugmynd að útrýma reiðufé í baráttunni við skattsvik. Þessu er ég algjörlega ósammála. Þetta má bera saman við illa rekið fyrirtæki í fjárhagserfiðleikum og er með alltof mikið af millistjórnendum en rekur ræstitækninn til að spara. Það þarf að skoða hákarlana hvað varðar skattsvik með aflandsfélög bakvið eyrað í þessu samhengi. Stundum er þægilegt að hafa pening á milli handanna, hver kannast ekki við það að gefa mikið fyrir að vera með fimmara á sér þegar pizzasendillinn kemur og stendur eins og kjáni í hurðinni að reyna að ná sambandi á fjárans posann? Pizzan bíður átekta og hitinn líður úr sneiðunum, þetta er nóg fyrir mig til að berjast fyrir reiðufé. Ég hvet fjármálaráðherra til að setja frekar fókusinn á innherjasvik og afskriftir.

Það er ekki nýmóðins að halda í orðin húsfreyja og húsbóndaherbergi, ef marka má Árelíu E. Guðmundsdóttur. En hún er með flottustu konum landsins,vel gefin og mikið fræðimenni. Ég hafði í raun ekki hugsað út í það að þessi orð væru á nokkurn hátt nyðrandi fyrir konur. Ég fékk smá fyrir hjartað því ég kalla vinkonu mína á skrifstofu Sjálfstæðisflokksins húsfreyjuna í Valhöll og hingað til hefur hún tekið því með bros á vör. Ég verð greinilega að setjast niður með henni og biðjast afsökunar. Tek samt fram að ég nota húsfreyjan sem blíðyrði þar sem vinkona mín hefur staðið vaktina í áratugi og rekið skrifstofu flokksins af visku og dáð og alltaf jafn yndisleg. Ég þarf greinilega að uppfæra mig hvað þetta varðar og það er eins gott að maður missi ekki út úr sér í heimsókn einhversstaðar að þetta er nú flottur húsbóndastóll. Árelía var stödd á snyrtistofu og varð bálreið þegar hún las grein í tímaritinu Hús og hýbýli þar sem ritað var að húsfreyja tók á móti blaðamanni – og fjallað var um húsbóndaherbergið. Ég þarf að aðlagast og varast orð sem gefa til kynna kynjamisrétti, því það er það síðasta sem ég glími við.

Jón Gunnarsson, samgöngumálaráðherra viðrar hugmyndir um gjaldtöku er ekið er út fyrir höfuðborgarsvæðið. Þessar tillögur eiga að fjármagna stórbætt gatnakerfi. Ég verð nú að lýsa yfir vonbrigðum mínum með flokksbróðir minn í þessu máli. Bifreiðargjöld og gjöld á eldsneyti eru eyrnamerkt samgöngum og nú er kominn tími á að það fjármagn renni í málaflokkinn. Jón minn, ég er ekki flokksbundinn sjálfstæðismaður sem slítur sér út í öllum kosningabaráttum til að ríkið sé alltaf með lúkuna í veskinu mínu. Ef ég vil meiri skatta og gjöld þá kýs ég skattagleðina sem fylgir vinstri flokkunum. Sjálfstæðisflokkurinn hækkaði áfengi og tóbak eftir kosningar, sem er mjög kjánalegt af ykkur, svo ég hvet þig og aðra þingmenn í flokknum til að lesa yfir stefnuna fyrir síðustu kosningar sem varð þess valdandi að Sjálfstæðisflokkurinn er stærstur og mestur – engar skattahækkanir var eitt af aðal loforðunum, núna þarf bara að standa við gefin loforð.

Ég fór fyrr í vikunni á bensínstöð til að fjárfesta í Víkingalottó. Ég var með gamlan miða á mér til að láta yfirfara. Starfsmaðurinn skellti miðanum í vélina sem byrjaði að fagna með þvílíkum látum að heppni var að vélin skoppaði ekki út af borðinu. Ég stóð þarna og hugsaði nei loksins kom að mér – ég var byrjaður að panta miðann til Balí og ósjálfrátt var ég farinn að brosa út að eyrum. Starfsmaðurinn kemur askvaðandi til mín og segir með bros á vör, „heyrðu þú ert aldeilis ljónheppinn þú bara vannst,,,,, 2000 þúsund.“ Í huganum sagði ég þegiðu fíflið þitt, en reyndi að halda andliti. Eina leiðin til að geta fjárfest í íbúð á klakanum góða er að erfa eða vinna lottó. Ekki kemur til greina að versla af Bingó Bjössa í Kópavoginum sem býður skáparými á 95% láni með afborgun upp á tæpar 200 þúsund á mánuði. Nei ég læt það vera, enda búinn að eyða alltof miklum tíma í skápnum.

Meirihluti borgarstjórnar ræðir hugmyndir um lækkun hraða á ýmsum götum borgarinnar. Um er að ræða götur sem eru á álagstímum stíflaðar. En utan þess tíma eru þær greiðfærar og skipta sköpum í flæði umferðar á milli borgarhluta. Þessar hugmyndir sýna enn og aftur hve mikill skaði er af þessum meirihluta. Það er orðið algjört forgangsatriði að koma Degi og co frá völdum. Það kemur mér hreinlega á óvart að ekki sé búið að mótmæla við ráðhúsið og krefjast afsagnar miðað við hvernig haldið er um stjórnartaumana í borginni. Ekki bara þetta tiltekna mál sem hér er nefnt, þessi mál eru efni í heila ritgerð. Húsnæðismál, grunnþjónustan, skipulagsmál, sama hvert er litið, allsstaðar er Dagur með buxurnar á hælunum. Rúmt ár í kosningar, ég bara get ekki beðið.

Góða helgi