Öll Suðurnesjaliðin nældu sér í stig

Grindavík, Keflavík og Njarðvík unnu öll leiki sína í fimmtu umferð Dominos-deildarinnar í körfuknattleik í gærkvöldi, mis sannfærandi þó. Keflvíkingar tóku Tindastól í kennslustund, Grindvíkingar mörðu ÍR-inga og Njarðvíkingar unnu sannfærandi sigur á Skallagrímsmönnum.
Sigur Njarðvíkinga á Skallagrími á heimavelli var sannfærandi þrátt fyrir að gestirnir hafi náð að byggja upp smá spennu með því að minnka muninn í þrjú stig þegar skammt var eftir, þá settu Njarðvíkingar í fluggírinn og náðu að klára leikinn. Sigurinn var mikilvægur fyrir Njarðvíkinga sem hafa átt erfitt uppdráttar í upphafi tímabilsins.
Stefan Bonneau var stigahæstur hjá Njarðvík með 30 stig og Björn Kristjánsson skoraði 20.
Grindavík lagði ÍR að velli 81-78 á heimavelli þeirra síðarnefndu í gær. Grindvíkinga voru í ágætis málum í fyrri hálfleik, náðu að byggja upp forskot sem ÍR-ingar söxuðu jafnt og þétt á í síðari hálfleik. ÍR-ingar komust svo yfir þegar nokkrar mínútur lifðu leiks og eftir það var leikurinn æsispennandi og liðin skiptust á að hafa forystu. Grindavík náði svo þriggja stiga forystu þegar nokkrar sekúndur voru eftir af leiknum, sem þeir héldu út leikinn þrátt fyrir öflugar tilraunir ÍR-inga til að jafna.
Lewis Clinch Jr. skoraði 20 stig, tók 5 fráköst/ og átti 5 stoðsendingar, Dagur Kár Jónsson kom vel út í sínum fyrsta leik fyrir Grindavík og skoraði 14 stig.
Öflugur varnarleikur tryggði Keflvíkingum þau stig sem í boði voru í TM-höllinni í gærkvöldi gegn Tindastólsmönnum og má segja að þeir hafi hefnt ófara granna sinna úr Njarðvík, en sigur liðsisns gegn Stólunum var afar sannfærandi, lokatölur leiksins 101-79.
Amin Stevens átti frábæran leik fyrir Keflvíkinga, en hann var stigahæstur með 35 stig, auk þess að taka 19 fráköst og gefa 5 stoðsendingar, Guðmundur Jónsson kom næstur með 23 stig.