Grindavíkurtap á heimavelli og Keflavíkurtap á útivelli

Grindvíkingar tóku á móti KR-ingum í öðrum leik liðanna í úrslitakeppni Dominos-deildarinnar í körfuknattleik í Mustad-höllinni í kvöld. KR-ingar höfðu sigur í leiknum 77-91.
Grindvíkingar komu ákveðnir til leiks og ljóst að liðið stefndi á að selja sig dýrt, þeir héldu í KR-inga í fyrsta leikhluta, þar sem jafnt var á öllum tölum þar til í lokin að KR-ingar náðu 4 stiga forskoti, 13-17. Gæðamunurinn á liðunum kom svo í ljós í öðrum leikhluta og KR-ingar juku muninn jafnt og þétt, staðan í hálfleik 33-43 KR-ingum í vil.
KR-ingar náðu svo mest 22 stiga forskoti í 3ja leikhluta, en Grindvíkingar náðu þó að hleypa smá spennu í leikinn undir lokin þegar þeir náðu að minnka muninn í 5 stig, nær komust þeir þó ekki og KR-ingar höfðu sigur, 77-91.
Þorleifur Ólafsson, Jóhann Ólafsson og Chuck Garcia voru bestir hjá Grindavík í kvöld.
Öruggur sigur Tindastóls á Króknum
Keflvíkinga bíður erfitt verkefni ætli þeir sér lengra á Íslandsmótinu í körfuknattleik, liðið er 2-0 undir í einvíginu gegn Tindastóli eftir sextán stiga tap í kvöld.
Stólarnir höfðu þriggja stiga forystu í leikhléi og Keflvíkingar komust yfir í upphafi þriðja leikhluta en þá tóku Tindastólsmenn öll völd á vellinum og hreinlega völtuðu yfir Keflvíkinga. Lokatölurnar á Sauðárkróki 96-80 heimamönnum í vil.
Jerome Hill var bestur Keflvíkinga í kvöld og skoraði 22 stig, Magnús Már Traustason skoraði 14.