Nýjast á Local Suðurnes

Unnið að listfræðilegri skráningu verka í eigu Reykjanesbæjar

Valgerður Guðmundsdóttir forstöðumaður listasafnsins lagði fram ársskýrslu 2015 og kynnti fyrir menningarráði Reykjanesbæjar á fundi þess þann 10. mars síðastliðinn. Listasafn Reykjanesbæjar er eina listasafnið á Suðurnesjum og sinnir öllum hefðbundnum safnastörfum. Settar voru upp 13 sýningar á vegum safnsins á árinu og safneignin er nú orðin 687 verk.

Fram kom í kynningu Valgerðar að safnkosturinn hafi allur verið skráður í Sarp og verkefnaráðinn starfsmaður vann við að fylla betur inn listfræðilega skráningu verkanna. Safnið er með góða vefsíðu og fésbókarsíða er í gangi og safnið stendur fyrir kynningum á íslenskri myndlist í Flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Útgefnar voru 7 sýningarskrár og þar af ein upp á 60 síður. Listasafnið stýrði verkefnunum Listahátíð barna, List án landamæra og Listaskólanum.