Nýjast á Local Suðurnes

Fyrsti heimaleikur Njarðvíkinga á laugardag – “Teljum okkur vera með lið sem getur farið upp”

Njarðvíkingum ætti ekki að verða kalt á heimaleikjum liðsins á næstunni, en félagið hefur tekið upp á þeirri nýbreytni að lána áhorfendum sem mæta á heimaleiki liðsins teppi ef veðurskilyrði eru í verri kantinum.

Það er Ingigerður Sæmundsdóttir, eigandi Blue View gistihússins í Njarðvík, sem styrkir Njarðvíkinga í þessu áhugaverða verkefni, en hún kom í dag færandi hendi með stafla af hlýjum teppum sem geta komið sér vel, segir í tilkynningu. Áhorfendur á Njarðtaksvelli geta fengið teppi lánað og horft á piltana í sumar.

Njarðvíkingar leika sinn fyrsta heimaleik á Njarðtaksvellinum á þessu tímabili á laugardag, þegar liðið tekur á móti Sindra. Njarðvíkingum er spáð fjórða sæti í annari deildinni á þessu tímabili af þjálfurum og fyrirliðum þeirra liða sem leika í deildinni, en Njarðvíkingar stefna hærra og ætla sér að berjast um sæti í Inkasso-deildinni að ári.

“Við förum i alla leiki til að vinna og leggjum mikla áherslu á að gera heimavöllinn okkar að velli þar sem erfitt er fyrir önnur lið að sækja stig. Við teljum okkur vera með lið sem getur farið upp úr deildinni í haust og við höfum í raun allt að bera til að verða á þeim stall þegar flautað verður til leiksloka.” Sagði Rafn Markús Vilbergsson, þjálfari Njarðvíkur, við Fótbolti.net, þegar spáin var opinberuð.