Nýjast á Local Suðurnes

Fjölbrautaskóli Suðurnesja fékk viðurkenningu í úttekt SFR á stofnun ársins

Fjölbrautaskóli Suðurnesja varð í 3. sæti í flokka stórra ríkisstofnana í úttekt SFR á stofnun ársins. Skólinn hlaut þar með titilinn Fyrirmyndarstofnun og er ein ellefu ríkisstofnana sem fær þann titil.  Þetta er fjórða árið í röð sem við hljótum heitið Fyrirmyndarstofnun en síðustu tvö ár varð skólinn í 2. sæti í sínum flokki.

Könnunin um Stofnun ársins er framkvæmd af Gallup og er samstarfsverkefni SFR, fjármála- og efnahagsráðuneytisins, Starfsmannafélags Reykjavíkurborgar og VR og taka um 12.000 starfsmenn á almennum og opinberum markaði þátt í henni.  Þátttakendur eru spurðir út í níu þætti í starfsumhverfinu þ.e. trúverðugleika stjórnenda, starfsanda, launakjör, vinnuskilyrði, sveigjanleika í starfi, sjálfstæði í starfi, ímynd stofnunar, ánægju og stolt og jafnrétti.

Myndin hér að ofan var tekin þegar úrslitin voru tilkynnt á Hilton Nordica en það voru Kristján Ásmundsson skólameistari og Jón Þorgilsson trúnaðarmaður SFR í Fjölbrautaskóla Suðurnesja sem tóku við viðurkenningunni.

Hægt er að sjá meira um könnunina og niðurstöður á vef SFR.