Nýjast á Local Suðurnes

“Misgóðar” hugmyndir um bílastæðasjóð

Myndin tengist fréttinni ekki að öðru leiti en því að á henni eru bílar

Bíladtæðamál í Reykjanesbæ voru til umræðu á fundi bæjarstjórnar í gær, en á dögunum var samþykkt að vinna að stofnun bílastæðasjóðs í sveitarfélaginu. Nákvæm útfærsla á starfsemi sjóðsins liggur ekki fyrir en ljóst er að stefnt sé að því að innheimta gjöld fyrir notkun á svæðum í eigu sveitarfélagsins til dæmis í miðbænum.

Fulltrúar minnihlutans í bæjarstjórn eru ekki hrifnir af þessum fyrirætlunum, en fagna því að umræða um bílastæðavanda sé komin á skrið. Fulltrúi Umbótar í bæjarstjórn lagði fram eftirfarandi bókun um málið og slíkt hið sama gerðu Fulltrúar Sjálfstæðisflokks. Báðar bókaninar má sjá hér fyrir neðan.

Við fögnum því að hafin er umræða um þann bílastæðavanda sem blasir við í miðbænum. Við viljum þó hvetja til þess að stigið verði varlega til jarðar í þeim efnum þar sem vandinn er margþættur. Samgöngur eru ekki til fyrirmyndar og því ekki tímabært að þær komi í stað einkabílsins, mikið er af skrifstofuhúsnæði á Hafnargötunni þar sem starfsmenn vinna frá 8-4 virku dagana og þurfa því langtímastæði og svo hefur íbúðum í miðbænum fjölgað. Helst þarf þó að gæta að hagsmunum þeirra verslana sem eru við Hafnargötuna en ekki má fæla frá möguleg viðskipti þeirra verslana með því að hafa gjaldskyld bílastæði. Mögulega væri fyrsta skrefið að byrja skoða lausnir á langtímastæðum en með því yrði kannski meira flæði á sjálfum stæðunum sem eru á Hafnargötunni.“

Fulltrúar Sjálfstæðisflokksins lögðu fram eftirfarandi bókun:


„Sjálfstæðisflokkurinn leggur áherslu á að stigið sé varlega til jarðar er varðar hugmyndir að bílastæðasjóði. Nú er málið eingöngu á hugmyndastigi en í bókun Umhverfis- og skipulagsráðs eru þegar settar fram hugmyndir sem eru misgóðar að okkar mati.
Sjálfstæðisflokkurinn er tilbúinn í samstarf um athugun á fýsileika bílastæðasjóðs en hefur áhyggjur af þeim atriðum sem koma fram varðandi málið áður en vinnan er farin af stað.“