Nýjast á Local Suðurnes

Gríðarlegt álag á þjónustuver Vegagerðar – Mest spurt um færð á brautinni

Gríðarlegt álag var á starfsfólki þjónustuvers Vegagerðarinnar þegar óveður skall á landið á dögunum. Langflestar fyrirspurnir snéru að færð á Reykjanesbraut.

“Við vorum viðbúin því að þurfa að vera með meiri viðveru þessa daga og því að þurfa jafnvel að gista upp í vinnu. Þeir sem voru á frívakt voru viðbúnir að verða kallaðir til vinnu,“ segir Kristinn Þröstur Jónasson deildarstjóri umferðarþjónustunnar, á vef Vegagerðarinnar, en starfsmenn umferðarþjónustunnar veita upplýsingar um færð og veður í síma 1777. Starfsstöð þeirra er á þjónustustöð Vegagerðarinnar á Ísafirði.

„Það var talsvert mikið að gera. Við svöruðum rúmlega þúsund símtölum á þriðjudeginum en þá var versta veðrið. Fólk var þá aðallega að hringja með áhyggjur af Reykjanesbraut og af Höfuðborgarsvæðinu. Fólk úti á landi hringdi ekki mikið enda var þannig veður að allt lokaðist mjög fljótlega,“ lýsir Kristinn og bendir á að send hafi verið út 176 tíst á þriðjudegi og 205 á miðvikudag. Tístin svokölluðu birtast bæði á Twitter og heimasíðu Vegagerðarinnar en þar er tilkynnt um lokanir og aðra röskun á umferð.

Fleiri símtöl bárust á miðvikudag eða í kringum 1500. „Þá var fólk að hringja og athuga með mokstur og opnanir en talsvert meiri óvissa var í svörum við því.“ Kristinn segir oft vera meira að gera í vondum veðrum. „Ég held að það hafi hjálpað mikið til að allir voru undirbúnir fyrir að veðrið yrði vont enda var búið að vara við því rúmlega sólarhring áður.“ Helsta vandamálið hafi verið að fjölmiðlar hafi túlkað „áætlaðar lokanir“ Vegagerðarinnar aðeins of alvarlega, eða eins og um endanlegar ákvarðanir væri að ræða.

Fyrirspurnir til umferðarþjónustunnar koma aðallega í gegnum umferðarsímann 1777 en einnig í gegnum tölvupósta, facebook og twitter. „Fyrirspurnirnar snerust helst um hvenær vegum yrði lokað og hvernig ferðaveður væri. Þegar fór að hægjast um fór fólk að spyrja um opnun vega,“ segir Kristinn en þegar til kom þurfti ekki að kalla út auka mannskap. „Við vorum mönnuð eins og venjulega en einhverjir unnu lengur.“

En hvernig líður fólki eftir svona annir? „Fólk er alltaf örmagna eftir svona tarnir. Hver einstaklingur er að svara í kringum 300 símtölum og það bergmálar allt í hausnum eftir vaktina.“