Nýjast á Local Suðurnes

Varað við hríðar­veðri

Mynd: Björgunarsveitin Þorbjörn

Veðurstofa Íslands hefur gefið út gular viðvaranir vegna hríðarveðurs fyrir stóran hluta landsins, þar á meðal höfuðborgarsvæðið, Suðurland og Faxaflóa. Gert er ráð fyrir snjókomu og vindum þannig að líkur eru á að færð spillist.

„Í dag hvessir af suðaustri og þykknar upp, fyrst um landið vestanvert. Í kvöld má búast við að vindstyrkur verði kominn víða upp undir stormstyrk (20 m/s).

Dálítil óvissa er hve hratt hlýnar en það hefur mikil áhrif á hvaða úrkomutegund verður á láglendi. Líklegast er að úrkoman byrji sem snjókoma eða slydda en færist síðan yfir í rigningu á láglendi.

Mestu hlýindin verða samt ekki fyrr en eftir miðnætti og fram undir morgun, en þá snýst vindur jafnframt til suðvestanáttar.

Hún verður ekki eins hvöss og úrkomumikil eins og veðrið verður í nótt, en um og eftir hádegi á morgun er útlit fyrir að vindur verði víða 15-20 m/s og hvassari í éljum og þá hefur einnig kólnað talsvert frá morgninum.

Á fjallvegum, einkum á vestanverðu landinu verður ekki eins hlýtt svo að bæði má reikna með að úrkoma fari seinna yfir í rigningu í kvöld eða nótt og eins kólnar fyrr þar á morgun svo að öll úrkoma fellur þar sem él á morgun. Föstudagurinn verður líklega keimlíkur morgundeginum en fer þó að lægja undir kvöld,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings.