Nýjast á Local Suðurnes

Samherji auglýsir eftir starfsfólki vegna uppbyggingar á Suðurnesjum

Mynd: Heimasíða Samherja / Eldisstöð Grindavík

Samherji fiskeldi leitar að nú að starfsmanni í teymi sem vinnur að hönnun, teikningu og öðru því sem tengist fyrirhugaðri uppbyggingu og framkvæmdum fyrirtækisins á Suðurnesjum, en fyrirtækið vinnur nú að því að skoða kosti þess að nýta byggingar Norðuráls í Helguvík undir fiskeldi.

Tilvonandi starfskraftur þarf að búa yfir nokkrum mikilvægum kostum, eins og sjá má hér fyrir neðan og vera klár í að starfa á starfsstöð fyrirtækisins á Stað í Grindavík, en auk þess að skoða kosti Helguvíkur stendur til að stækka eldi fyrirtækisins í Grindavík.

  • Menntun á sviði byggingarverkfræði/tæknifræði eða aðra menntun sem nýtist í starfið
  • Þekkingu, getu og reynslu í að teikna í AutoCad og þrívídd
  • Metnað og hugmyndaauðgi
  • Jákvæðni, hæfni og vilja til að takast á við flókin verkefni og starfa í hóp ólíkra einstaklinga með sama markmið
  • Góða tölvukunnáttu og vald á helstu forritum
  • Góða enskukunnáttu

Umsóknarfrestur er til og með 30. nóvember 2020 og sækja skal um á www.mognum.is og skila með fylgigögnum.

Í auglýsingu er sérstaklega tekið fram að Samherji sé eitt öflugasta sjávarútvegsfyrirtæki Evrópu, með fjölbreytta starfsemi víðsvegar um heim.

Samherji fiskeldi er dótturfyrirtæki Samherja og er fiskeldisfyrirtæki sem rekur fimm eldisstöðvar, þar af tvær á Suðurnesjum. Auk þess rekur fyrirtækið eina fullkomnustu fiskvinnslu landsins í Sandgerði sem er sérhæfð til vinnslu á bleikju.