Nýjast á Local Suðurnes

Kostnaður við stjórnsýslu Reykjanesbæjar eykst gríðarlega

Fjárhagsáætlun Reykjanesbæjar og sameiginlega rekinna stofnana fyrir árin 2020-2023 var til umræðu á síðasta fundi bæjarstjórnar. Á fundinum lýsti fulltrúi Miðflokksins yfir undrun sinni á hækkuðum kostnaði við stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Samkvæmt bókun sem Gunnar Felix Rúnarsson lagði fram hækkar þessi kostnaður um tæpar 40 milljónir króna á milli ára.

Bókun Gunnars má sjá hér fyrir neðan:

Það sem kemur mér verulega á óvart varðandi fjárhagsáætlunina er hækkun á milli ára hjá stjórnsýslu. Árið 2019 var kostnaðurinn 45.000.000 en í fjarhagsáætluninni fyrir árið 2020 er gert ráð fyrir kostnaðaraukningu en kostnaðurinn mun verða 84.915.000 kr. Hér er um að ræða kostnaðaraukningu upp á tæpar 40.000.000 kr. sem er helmings hækkun. Telur meirihlutinn það vera eðlilegt?

Ég skil vel að kostnaðurinn vegna rafrænnar stjórnsýslu sé óhjákvæmilegur. Var nauðsynlegt að stækka báknið? Ég bara spyr. Ég velti því fyrir mér hvort að þetta sé rétti tíminn til að auka kostnað stjórnsýslunnar.

Hér ríkir mikil óvissa á svæðinu og aukið atvinnuleysi. Almennt er talið að við séum að fara í gegnum niðursveiflu. Er þá eðlilegt að auka álögur á bæjarbúa vegna stjórnsýslunnar, væri ekki skynsamlegra að lækka álögur á bæjarbúa?