Nýjast á Local Suðurnes

Opið bókhald í Reykjanesbæ – “Aukinn áhugi á rekstri og gagnsæi í meðferð fjármuna”

Nú er hægt er að skoða tekju og gjaldaliði Reykjanesbæjar alveg niður í einstaka birgja gegnum vef sveitarfélagsins, en Reykjanesbær kynnti svokallað Opið bókhald þann 1. september.

Í tilkynningu frá Reykjanesbæ kemur fram að nú sé fyrsti ársfjórðungur ársins 2017 aðgengilegur í Opna bókhaldinu og allt árið 2016. Ársfjórðungum verður bætt við um leið og árshlutauppgjör hefur verið sent til Kauphallar í samræmi við reglur um útgáfu skuldabréfa.

Helga María Finnbjörnsdóttir viðskiptafræðingur í hagdeild Reykjanesbæjar segir markmiðið með opnun bókhaldsins vera það að gera fjárhagsupplýsingar aðgengilegar bæjarbúum og öðrum áhugasömum. Einnig að skýra frá ráðstöfun opinberra fjármuna sveitarfélagsins.

„Stjórnendur Reykjanesbæjar hafa fundið fyrir auknum áhuga á rekstri bæjarfélagsins og gagnsæi í meðferð fjármuna. Þetta er skref í því að svara því kalli. “ Er haft eftir Helgu í tilkynningunni.

Við hönnun og uppsetningu Opna bókhaldsins hefur sérstök áhersla verið lögð á skýrt, einfalt og notendavænt viðmót þannig að ekki sé þörf á mikilli fjármálaþekkingu til að afla sér gagnlegra upplýsinga. Helga segir kostina við opnun bókhaldsins vera skýra.

„Kostirnir við gagnsæi af þessum toga eru margvíslegir. Með auknu aðgengi að upplýsingum og aðhaldi íbúa mun umræða verða upplýstari, ákvarðanataka betri og lýðræðisþátttaka aukast.” Segir Helga.

Opna bókhaldinu er skipt í tvo hluta; tekjur og gjöld. Tekjur eru brotnar niður á málaflokka, þjónustuþætti og einstaka tekjuliði og hægt er að skoða heildartekjur valinna tímabila. Niðurbrot gjalda er sambærilegt en þar er einnig hægt að skoða niðurbrot niður á einstaka birgja.

Hér má skoða opna bókhaldið.

Gagnatorg Reykjanesbæjar

Auk Opna bókhaldsins hafa ýmsar tölulegar upplýsingar verið settar fram um nokkurt skeið undir heitinu „Gagnatorg Reykjanesbæjar“ þar sem m.a. má finna ýmsar tölur úr rekstri Reykjanesbæjar ásamt lýðfræðilegum upplýsingum t.d. íbúafjöldi, atvinnuleysi o.fl.

Frekari vinna og þróun tölulegra upplýsinga úr m.a. rekstri bæjarins er í vinnslu og verður bætt við Gagnatorgið eftir því sem það þróast.

Það er von bæjaryfirvalda að Opið bókhald og Gagnatorg geti nýst íbúum, fjölmiðlum, atvinnulífinu og stjórnendum sem allra best.

Hér má skoða Gagnatorgið.