Nýjast á Local Suðurnes

Útlit fyrir stöðugan hallarekstur A-hluta Reykjanesbæjar

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar segir árið 2015 hafa verið hagstætt að flestu leyti í pistli sem hann skrifar á heimasíðu sveitarfélagsins.  Í pistlinum fer Kjartan meðal annars yfir stöðuna á Sókninni, sem bæjaryfirvöld samþykktu árið 2014. Sóknarhluta pistilsins er að finna hér fyrir neðan:

Markvisst hefur verið unnið að innleiðingu Sóknarinnar; áætlunar sem bæjaryfirvöld samþykktu haustið 2014 að hrinda í framkvæmd eftir mikla vinnu KPMG og fleiri ráðgjafa við úttekt á fjárhagsstöðu Reykjanesbæjar. Sóknin samanstendur af 4 meginþáttum; A) að bæta framlegð í rekstri A-hluta bæjarsjóðs B) að halda fjárfestingum í nýjum innviðum í lágmarki C) að endurskipuleggja skuldir Reykjanesbæjar og D) að stöðva fjárstreymi frá A-hluta bæjarsjóðs yfir til fyrirtækja og stofnanna í B-hluta starfseminni s.s. Reykjaneshafnar og Fasteigna Reykjanesbæjar.

Staðan í einstökum þáttum er nú þannig:

A)     Bætt framlegð A-hluta bæjarsjóðs. Útlit er fyrir að með samstilltu átaki sé starfsmönnum, stjórnendum og bæjaryfirvöldum að takast, með ýmsum hagræðingaraðgerðum en einnig auknum álögum á bæjarbúa, að auka framlegð úr grunnrekstri A-hluta bæjarsjóðs verulega. Framlegðin dugir þó hvergi til að standa undir afskriftum, vöxtum og fjárfestingum og mun ekki gera næstu árin nema takist að lækka skuldir og um leið vaxtagjöld. Á meðan er útlit fyrir stöðugan hallarekstur A-hluta sem er auðvitað óásættanlegt og ólöglegt.

B)      Fjárfestingum í nýjum innviðum hefur verið haldið í algjöru lágmarki. Áhersla hefur verið lögð á að ljúka við verkefni sem þegar voru hafin, s.s. stækkun leikskólans Hjallatúns. Að öðru leyti halda menn að sér höndum og gera eins lítið og hægt er. Þó er ljóst að ekki verður hjá því komist að hefja byggingu nýs grunnskóla innan tíðar.

C)      Vinna við endurskipulagningu skulda Reykjanesbæjar hefur fyrst og fremst falist í undirbúningi, gagnaöflun, greiningu og viðræðum við kröfuhafa með það að markmiði að komast að sameiginlegri niðurstöðu um hver raunverulegur skuldavandi sveitarfélagsins er. Sú vinna gengur mun hægar en vonast var til enda gerólík sjónarmið uppi um þessi flóknu mál. Þegar niðurstaða í þeim viðræðum liggur fyrir verður vonandi hægt að átta sig á, miðað við sameiginlega framtíðarsýn bæjaryfirvalda og kröfuhafa, hvað þarf til þess að Reykjanesbær geti veitt íbúum þá þjónustu sem þeir eiga rétt á en um leið staðið undir fjárhagslegum skuldbindingum sínum og komist undir lögboðið 150% skuldaviðmið sveitarstjórnarlaga fyrir árslok 2022.

D)     Vinna við að stöðva helst alveg fjárstreymi frá A-hluta bæjarsjóðs yfir til B-hluta fyrirtækja hófst á árinu. Fyrstu merki um breytt vinnubrögð komu í ljós þegar B-hluta fyrirtækið Reykjaneshöfn gat ekki greitt af lánum sínum sl. haust og bæjarráð og bæjarstjórn höfnuðu beiðni stjórnar Reykjaneshafnar um lán úr A-hluta bæjarsjóði. Niðurstaðan varð sú að kröfuhafar Reykjaneshafnar gáfu höfninni frest til 15. janúar 2016 til að ráða ráðum sínum.

Ekki tókst að lækka rekstrarkostnað Fasteigna Reykjanesbæjar eins og til stóð. Félagið sér um útleigu á félagslegu húsnæði og hafa leigutekjur aldrei staðið undir rekstrarkostnaði félagsins og því verið stöðugur hallarekstur á félaginu. Nýtt skipulag Fasteigna Reykjanesbæjar tók gildi 1. janúar 2016 og verður árið notað til að greina og hagræða eins og hægt er. Ef það dugir ekki verður að grípa til annarra aðgerða.