Búist við jákvæðri niðurstöðu í Suðurnesjabæ
Fjárhagsáætlun Suðurnesjabæjar fyrir árin 2024-2027 var samþykkt samhljóða í bæjarstjórn á fundi hennar þann 13. desember 2023. Fjárhagsáætlunin nær yfir rekstraráætlun, sjóðstreymi og áætlaðan efnahagsreikning fyrir Suðurnesjabæ, stofnanir hans og hlutdeildarfélög.
Forsendur fjárhgsáætlunar byggja meðal annars á þjóðhagsspá Hagstofu Íslands varðandi verðlags-og launaþróun næstu ára. Áætlunin byggir einnig á áætlun um útsvarstekjur og framlög frá Jöfnunarsjóði sveitarfélaga.
Áætlun ársins 2024 gerir ráð fyrir að heildartekjur samstæðu A og B hluta verði 6.779 mkr. Heildartekjur A hluta bæjarsjóðs eru áætlaðar 6.440 mkr., segir í tilkynningu.
Rekstrargjöld án fjármagnsliða eru áætluð 6.031 mkr. hjá samstæðu A og B hluta, en hjá A hluta bæjarsjóðs 6.225 mkr.
Afskriftir í samstæðu A og B hluta eru áætlaðar 283 mkr. og fjármagnsgjöld umfram fjármunatekjur nema 334 mkr. Rekstrarniðurstaða samstæðu A og B hluta er áætluð jákvæð 128 mkr. og hjá A hluta bæjarsjóðs jákvæð 129 mkr.
Eignir Suðurnesjabæjar í árslok 2024 eru áætlaðar 10.618 mkr. þar af eignir A hluta bæjarsjóðs 1.921 mkr. Skuldir og skuldbindingar samstæðu A og B hluta eru áætlaðar 6.331 mkr. í árslok 2024, þar af 4.425 mkr. hjá A hluta bæjarsjóðs. Eigið fé samstæðunnar er áætlað 4.287 mkr. í árslok 2024.
Fjárfestingaáætlun hljóðar upp á 968 mkr., og er gert ráð fyrir nýjum lántökum að fjárhæð 400 mkr. Afborganir eldri lána og skuldbindinga eru áætlaðar 340 mkr.
Reiknaðar lífeyrisskuldbindingar eru 1.415 mkr. hjá samstæðu A og B hluta, en 1.161 mkr. hjá A hluta. Skuldaviðmið samstæðu A og B hluta í árslok 2024 er áætlað 68%, samkvæmt fjármálareglu Sveitarstjórnarlaga má þetta hlutfall að hámarki vera 150%.
Veltufé frá rekstri A hluta er áætlað 246 mkr. og veltufé frá rekstri samstæðu A og B hluta 773 mkr. Handbært fé í árslok 2024 er áætlað 441 mkr. hjá samstæðu A og B hluta.
Samkvæmt fjárhagsáætlun fyrir árin 2024-2027 stenst Suðurnesjabær fjármálareglur Sveitarstjórnarlaga um skuldaviðmið og jöfnunarreglu um rekstrarniðurstöðu.