Nýjast á Local Suðurnes

Kjósa um sameiningu við VR

Formenn VR og VS

Um þessar mundir stendur yfir kosning á meðal félagsmanna Verslunarmannafélags Suðurnesja (VS) um sameiningu við VR, en samþykkt var á síðasta aðalfundi VS að heimila stjórn félagsins að hefja viðræður við VR um mögulega sameiningu félaganna og gera lagabreytingar sem heimiluðu slíkt. Þær lagabreytingar hafa nú verið samþykktar. Því fer rafræn atkvæðagreiðsla fram meðal fullgildra félagsmanna VS.

Verði sameiningin samþykkt mun hún taka gildi undir nafni og kennitölu VR þann 1. apríl næstkomandi. Sameiningunni fylgja nokkrar breytingar fyrir félagsmenn VS, verði hún samþykkt. Félagsgjöld munu lækka úr 1%  í 0.7%. VR mun starfrækja skrifstofu á félagssvæði VS eftir sameiningu og tekur yfir skuldbindingar gagnvart starfsmönnum félagsins. Önnur iðgjöld verða óbreytt og aðild að lífeyrissjóði breytist ekki

Við sameininguna verður tekið upp fyrirkomulag styrkja eins og tíðkast hefur hjá VR um árabil í gegnum VR varasjóð. Inneign í varasjóði má nýta til að greiða niður kostnað við forvarnir, endurhæfingu, orlofsþjónustu, námskostnað ofl.. Upphafsstaða félagsmanna í varasjóðnum skal taka mið af greiddum iðgjöldum árin 2016 og  2017, en frá dragast þeir styrkir úr sjúkrasjóði sem félagsmenn VS hafa fengið frá þeim tíma til 31. mars 2019.