Nýjast á Local Suðurnes

Fáir ætla að endurnýja leigusamninga við Tjarnarverk ehf.

Myndin tengis fréttinni ekki beint

Leigufélagið Tjarnarverk ehf. hefur verið töluvert í umræðunni undanfarna daga eftir að fréttir birtust um að fyrirtækið hygðist hækka húsaleigu hjá viðskiptavinum sínum á Suðurnesjum um allt að 40 prósent með tveggja daga fyrirvara. Fyrirtækið tilkynnti leigjendum um hækkunina með ábyrgðarbréfi dagsettu þann 27. júní, en samkvæmt bréfinu átti nýtt leiguverð að taka gildi þann 1. júlí síðastliðinn.

Reynir Kristinsson hjá Tjarnarverki sagði í hádegisfréttum Bylgjunnar að óánægja leigjenda væri fyrst og fremst hjá þeim sem eru með útrunna samninga sem upphaflega voru gerðir við Íbúðalánasjóð.

„Við höfum aðalega fengið óánægju frá þeim sem íbúðalánasjóður hefur tekið eignir á uppboði og svo hefur sýslumaður sem sagt sett niður leigu sem er yfirleitt mjög lán. Sá samningur er svo útrunninn, jafnvel fyrir einhverjum mánuðum síðan, og ekki hafa verið gerðir nýjir samningar,“ sagði Reynir á Bylgjunni.

svölutjörn innri njarðvik reykjanesbær

Tjarnarverk ehf. á nokkrar íbúðir við Svölutjörn í Inrri Njarðvík

Nýtt leiguverð yfir markaðsverði

Þeir fasteignasalar sem Local Suðurnes hefur rætt við segja markaðsverð á leiguhúsnæði vera á uppleið á Suðurnesjum en sé enn ekki í námunda við það sem Tjarnarverk ehf. hyggst innheimta en það er um 1700 krónur á fermetra.

Forsvarsmenn Tjarnarverks segjast hinsvegar aðeins vera að færa leiguverð nær markaðsverði: „Og það verður náttúrulega töluverð hækkun fyrir það fólk og er kannski sárast líka af því að það hefur misst eignir sínar, fengið svo leigu, og þarf það að fara núna á markaðsleigu. Það fólk hefur verið sárast,“ sagði Reynir Kristinsson á Bylgjunni.

Hann bætti við: „Það er 67 prósent hækkun á fasteignagjöldum í Reykjanesbæ. Auðvitað hlýtur þetta að leiða það til að það fer inn í leigu á einhverjum tíma. Við erum bara að gefa fólki mjög góðan, sumum sex mánuði og sumum ár, að tilkynna þeim fyrirfram að leiga muni hækka.”

Ætla ekki að endurnýja samninga við fyrirtækið

Leigjendur hjá fyrirtækinu sem Local Suðurnes ræddi við hyggjast ekki endurnýja samninga sína við fyrirtækið og viti því í raun ekki hvað taki við að leigutíma loknum því erfitt sé að fá leiguhúsnæði á svæðinu. Einhverjir hafa samkvæmt heimildum Local Suðurnes þegar flutt úr íbúðum sínum.

“Ég mun ekki skrifa undir nýjan leigusamning við þetta fyrirtæki þegar minn rennur út og ætli maður endi þá ekki á götunni,” sagði einstæð þriggja barna móðir í samtali við blaðamann.

Local Suðurnes hefur sent fyrirspurnir á forsvarsmenn fyrirtækisins vegna málsins en þeim hefur enn ekki verið svarað.