Nýjast á Local Suðurnes

Leiguverð á Suðurnesjum hefur hækkað um 58%

Leiguverð hefur hækkað töluvert á Suðurnesjum, frá því sem það var fyrir fimm árum síðan. Ef miðað er við meðalverð á fermetra á þriggja herbergja íbúð á mánuði má vel sjá hversu mikil hækkun hefur orðið á meðalleiguverði á fermetra á Suðurnesjasvæðinu.

Í júlí árið 2011 var meðalverð á fermetra á Suðurnesjum á fyrrnefndri íbúðarstærð á íbúð 961 kr. Í júlí 2016, hafði það hækkað upp í 1.515 kr. á fermetrann. Nemur þetta 57,6% hækkun, en miðað er við nafnvirði leigu á hverjum tíma. Þetta kemur fram þegar stuðst er við tölur frá Þjóðskrá, þar sem koma fram hinar ýmsu upplýsingar um leiguverð íbúðarhúsnæðis.

Í gögnum Þjóðskrár er gert ráð fyrir að þriggja herbergja íbúð á Suðurnesjum sé 87 fermetrar að stærð, leiguverð á slíkri íbúð hefur því hækkað um rúmlega 50.000 krónur, en það var 83.607 kr. árið 2011, en er í dag 131.805 kr.