Nýjast á Local Suðurnes

Reykjaneshöfn hefur sótt um enn einn frestinn

Reykjanesbær hefur sótt um framlengingu á kyrrstöðutímabili á skuldum Reykjaneshafnar. Þetta staðfestir Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri í samtali við Viðskiptablaðið. Kyrrstöðutímabilið rennur að óbreyttu út á morgun.

Skuldir Reykjaneshafnar sem sótt er um að fresta voru upphaflega á gjalddaga 15. október. Þann dag var samið um kyrrstöðutímabil til 30. nóvember, sem var síðan framlengt til 15. janúar. Ef af verður er því um að ræða þriðja kyrrstöðutímabilið á þessum skuldum.

Kjartan segir ekkert nýtt að frétta í viðræðum um skuldir bæjarins. „Viðræðurnar lágu náttúrulega niðri um jól og áramót, en menn eru að byrja að hittast aftur og aðeins að tala saman.“

Aðspurður segist hann ekki myndu segja að viðræðurnar séu í baklás. „Ég myndi segja að viðræðurnar væru í gangi og það er ekki komin niðurstaða. Við erum í rauninni á sama stað og við vorum fyrir mánuði, tveimur mánuðum og þremur,“ segir hann.