Njarðvík og Grindavík með sigra í Dominos-deildinni

Njarðvíkingar lögðu Snæfell að velli í Dominos-deildinni í Körfuknattleik og Grindvíkingar báru naumlega sigurorð af Hetti í kvöld. Njarðvíkingar skutust með sigrinum upp að hlið Stjörnunnar í þriðja sæti deildarinnar með 16 stig.
Snæfellingar byrjuðu betur gegn Njarðvíkingum í kvöld og höfðu þriggja stiga forystu eftir fyrsta leikhluta. Annar leikhluti var skárri hjá Njarðvíkingum sem leiddu í leikhléi með fimm stigum, 48-43.
Fínn leikur Njarðvíkinga í þriðja leikhluta með þá Hauk Helga og Baginski í fararbroddi fór langt með að tryggja Njarðvíkingum þægilegan sigur á heimavelli, staðan að loknum þriðja leikhluta var 67-53. Loktölur leiksins urðu svo 93-76.
Baginski var stigahæstur Njarðvíkinga í kvöld, skoraði 24 stig, Haukur Helgi Pálsson 18 og tók 7 fráköst og Logi Gunnarsson skoraði 11 stig.
Framlengt hjá Grindavík og Hetti
Grindavíkurliðið ferðaðist á Egilsstaði í kvöld og lék gegn heimamönnum í Hetti. Leikurinn var Grindvíkingum erfiður og greinilegt að Hattarmenn hafi öðlast aukið sjálfstraust með sigrinum á Njarðvík á dögunum. Grindvíkingar voru undir nær allan leikinn og mest náði Höttur 14 stiga forystu í fyrrihálfleik. Grindvíkingar náðu þó að minnka muninn fyrir leikhlé en fyrri hálfleik lauk í stöðunni 39-36.
Höttur hélt frumkvæðinu í þriðja leikhluta og leiddu með 6 stigum að honum loknum, 56-50. Grindvíkingar náðu að halda besta leikmanni Hattar Tobin Carberry í skefjum í fjórða leikhluta og komust þá betur inn í leikinn og náðu að jafna á lokasekúndunum, 69-69 og framlenging staðreynd. Þar voru Grindvíkingar sterkari og lönduðu 10 stiga sigri, 71-81.
Chuck Garcia virðist hafa kólnað aðeins við að fá nýja og hlýja úlpu en hann skoraði 18 stig í leiknum. Þorleifur Ólafsson skoraði 21 stig og Ómar Örn Sævarsson skoraði 20 stig og tók 15 fráköst.