Nýjast á Local Suðurnes

Hagnaður hjá ORF Líftækni í fyrsta sinn á 15 árum

ORF Líftækni hagnaðist um 51 milljón króna í fyrra. Um er að ræða fyrsta rekstrarárið í fimmtán ára sögu fyrirtækisins þar sem það skilar hagnaði. Orf Líftækni hefur rekið Græna smiðju í Grindavík, en þar eru framleiddar húðvörur þar sem vaxtarþættir, framleiddir í plöntum, eru notaðir í vörurnar.

Í samtali við Viðskiptablaðið segir Kristinn D. Grétarsson, forstjóri ORF Líftækni, að góður tekjuvöxtur sé helsta ástæðan fyrir því að félagið nái þessum áfanga nú. Áætlanir geri ráð fyrir 30% vexti í ár.

“Það er eitthvað sem við bjuggumst ekkert endilega við, fyrir tveimur árum síðan, en það hafa verið að gerast mjög góðir hlutir í Kína. Svo er vöxtur á öllum markaðssvæðum. Það er sama hvert við lítum,“ segir hann.

Húðvörurnar sem framleiddar eru í Grindavík örva meðal annars frumur til að lagfæra skemmdir af völdum sólbruna og sporna gegn almennri hrörnun húðarinnar. Náttúruleg virkni vaxtarþáttarins minnkar þó með aldrinum, sem hamlar viðhaldi og endurnýjun húðfruma.