Nýjast á Local Suðurnes

Endurskoðað skipulag í fjárhagsaðstoðarmálum skýrir fækkun

Reykjanesbær lagði til rúmar 30 milljónir króna í fjárhagsaðstoð til 286 einstaklinga í maí og júní í ár, á móti  45,5 milljónum króna til 423 einstaklinga fyrir sama tímabil árið 2014, samkvæmt tölum sem sviðsstjóri Velferðarsviðs sveitarfélagsins kynnti fyrir Velferðarráði Reykjanesbæjar og Local Suðurnes greindi frá í síðustu viku.

Hera Osk

Hera Ósk Einarsdóttir sviðsstjóri Velferðarsviðs Reykjanesbæjar

Að sögn Heru Óskar Einarsdóttur, sviðsstjóra Velferðarsviðs Reykjanesbæjar, eru helstu skýringarnar á lækkun útgjaldanna og fækkun bótaþega aukin atvinnutækifæri á svæðinu en einnig endurskoðað skipulag og verklag í fjárhagsaðstoðarmálum.

„Felst þetta fyrst og fremst í að áhersla er lögð á að mæta vinnufærum umsækjendum um fjárhagsaðstoð sem fyrst eftir að umsókn um aðstoðina berst,  með stuðningsaðgerðum sem eflir og virkir umsækjanda og eykur möguleika  til atvinnuþátttöku,“ sagði Hera Ósk við Local Suðurnes.

„Þetta er gert með öflugri félagslegri ráðgjöf, með því að bjóða upp á námskeið með daglegri virkni sem hefur m.a. verið haldið í samstarfi við Miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, með starfi Fjölsmiðjunnar fyrir ungt fólk og með samstarfi við vinnumálastofnun.

Óvinnufærir einstaklingar hafa fengið stuðning við að komast í starfsendurhæfingu með eflingu samstarfs við Virk starfsendurhæfingu, sem sinnir á þeim vettvangi mikilvægu starfi eða með öðrum einstaklingsbundnum stuðningsaðgerðum miðað við aðstæður umsækjanda.

Lykilatriðin eru snemmtæk íhlutun, samvinna og aukin krafa um að umsækjendur séu virkir þátttakendur í úrlausn sinna mála,“ sagði Hera Ósk.

Staðan nú gefur góð fyrirheit um framhaldið

Aðspurð um hvort staðan myndi breytast með haustinu þegar sumarvinnutímabilinu lýkur sagði Hera Ósk:

„Staðan á vinnumarkaði eins og hún lítur út núna gefur fyrirheit um að vinnufært fólk haldi störfum áfram og eins og sést á atvinnuauglýsingum þá er enn þörf á mannafla í hin ýmsu störf svo ég á ekki von á breytingu með haustinu,“ sagði Hera Ósk.

„Vissulega eru sum störf tímabundin eins og t.d.  í ferðaþjónustu, en þeim þjónustugeira hefur verið að vaxa fiskur um hrygg og þarf því væntanlega á starfsfólki að halda lengur fram á haustið en oft áður,“ sagði Hera Ósk að lokum.