Nýjast á Local Suðurnes

Njarðvíkingar halda flottasta bingó ársins – Sjáðu vinningana!

Körfuknattleiksdeild Njarðvíkur stendur fyrir einni öflugustu fjáröflun ársins þann 27. desember næstkomandi klukkan 20, en þá mun deildin halda flottasta bingó sem hefur verið haldið i langan tima, bingó fyrir fullorðna, en 20 ára aldurstakmark er á þennan öfluga viðburð.

Í tilkynningu frá deildinni kemur fram að vinningarnir séu með þeim betri sem finnist á slíkum samkomum, en þar á bæ hafa menn lagt allskyns góðgæti í risakörfu ásamt flugeldum og ársmiðum á leiki karla- og kvennliða tímabilið 2020-2021. Þá er lokavinningur kvöldsins ekki af verri endanum, humarveisla ásamt risakörfu.

Njarðvíkingar hvetja velunnara sína til þess að mæta tímanlega á viðburðinn því gert er ráð fyrir að Ljónagryfjan verði full út að dyrum og rúmlega það. Þá hvetja Njarðvíkingar fólk til þess að grípa með sér vin eða vinkonu og reyna að vinna flottan vinning fyrir áramótin.

Eins og áður segir eru allir vinningar mjög veglegir eða 30-40 þúsund króna virði og því er heildarverðmætið nálægt hálfri milljón króna. Verði á bingóspjöldum er algjörlega stillt í hóf en eitt spjald kostar litlar 1.500 krónur. Ef keypt er í magni, fimm spjöld, er verðið 5000 krónur.