Nýjast á Local Suðurnes

Samið um skrif á sögu Keflavíkur – “Kostnaður hefur tilhneigingu til að fara fram úr áætlunum”

Kjartan Már Kjartansson bæjarstjóri Reykjanesbæjar og Árni Daníel Júlíusson undirrituðu samning um skrif á sögu Keflavíkur áranna 1949 til 1994 eða þar til bæjarfélöginn Njarðvík, Hafnir og Keflavík sameinuðust í Reykjanesbæ. Frá þessu er greint á vef Reykjanesbæjar.

Ekki kemur fram hver samningsupphæðin er, en áætlanir gera ráð fyrir að lagðar verði um 55 milljónir króna í verkefnið. Ekki eru þó allir á því að sú áætlun standist þar sem fulltrúar minnihluta halda því fram að kostnaður við svona verk eigi það til að fara vel fram úr áætlunum.

Árni Daníel mun taka að sér skrif sögu Keflavíkur frá árinu 1949 til 1994. Stefnt er að útgáfu á yfirlitsriti yfir sögu Keflavíkur 1949-1994 í einu bindi, sem verður á bilinu 350 til 450 bls. í hefðbundnu broti. Meðútgáfa verksins felst í uppbyggingu og opnun á sérstökum söguvef Reykjanesbæjar, sem í fyrstu verður tileinkaður fyrrgreindu tímabili í sögu Keflavíkur. Umsjón og uppsetning söguvefsins verður í höndum Byggðasafns Reykjanesbæjar.

Árni Daníel stundaði sagnfræðinám við Háskóla Íslands frá 1984 og lauk þaðan MA-námi 1991. Árið 1993 hóf hann doktorsnám við Kaupmannahafnarháskóla og lauk þaðan doktorsprófi 1997. Þá hóf hann með mörgum fleirum vinnu að því að byggja upp Reykjavíkurakademíuna og sat í fyrstu stjórn hennar 1997-1999. Árni Daníel ritstýrði með öðrum og ritaði að hluta Íslenskan söguatlas 1.-3. bindi, sem út kom 1989-1993. Hann ritstýrði Landbúnaðarsögu Íslands 1.-4. bindi sem kom út 2013, og ritaði þar 1. og 2. bindið. Árni ritaði bókina Skólinn við ströndina saga barnaskóla Stokkseyra og Eyrabakka.

Vonir standa til að lokahefti sögu Keflavíkur komi út á vormánuðum 2022, um leið og söguvefurinn verður opnaður með ítarefni s.s texta, hljóð og myndupptökum frá þessu tímabili í sögu Keflavíkur.