Nýjast á Local Suðurnes

Rita sögu Keflavíkur án kostnaðaráætlunar – “Það eru að sjálfsögðu engin vinnubrögð”

Fulltrúi Miðflokksins í bæjarstjórn Reykjanesbæjar hefur áhyggjur af því að ritun sögu Keflavíkur verði kostnaðarsöm og hefur ítrekað lagt fram fyrirspurnir um kostnaðaráætlanir við verkið en fengið fá svör.

Hún lagði fram bókun vegna málsins á síðasta fundi bæjarstjórnar þar sem hún segir að svona verkefni hafi tilhneigingu til að fara fram úr áætlunum og nefnir ritun sögu Akraness sem dæmi en það verkefni fór milljónum króna fram úr áætlunum.

Bókunin í heild sinni:

„Þann 3. mars kom Miðflokkurinn með fyrirspurn vegna útgáfu bókar um sögu Keflavíkur og spurði hver kostnaður við þessa fyrirhuguðu útgáfu yrði. Forseti bæjarstjórnar gat þá ekki svarað spurningunni. Málið virðist vera þannig vaxið að hér sé meirihlutinn að fara að ráðast í verkefni án þess að fyrir liggi kostnaðaráætlun. Það eru að sjálfsögðu engin vinnubrögð. Rétt er að geta þess hér að svona verkefni, kostnaðurinn við svona bókaútgáfu, hefur tilhneigingu til að fara fram úr áætlunum. Má þar nefna útgáfu um sögu Akraness sem dæmi. Ég vil því ítreka fyrirspurn mína og ætti meirihlutinn nú að hafa haft nægan tíma til að vinna svarið.“