Gjöld fyrir dagvistun og síðdegishressingu hækka mest milli ára hjá Reykjanesbæ

Gjöld fyrir dagvistun og síðdegishressingu hækka mest milli ára hjá Reykjanesbæ, eða um 4,4%. Þetta er á meðal þess sem kemur fram í nýrri könnun sem verðlagseftirlit ASÍ hefur tekið saman um þjónustu fyrir grunnskólabörn. Sömu gjöld hækka á bilinu 2-3% hjá öðrum sveitarfélögum.
Ef öll grunnskólagjöld eru skoðuð, það er að segja gjöld fyrir skóladagvistun, síðdegishressingu og skólamat, má sjá að þau hækka mest á Akranesi um 6,5% og næst mest hjá Reykjanesbæ, 5,1%. Gjöldin lækka mest hjá Fjaðrarbyggð um 10,7% en standa í stað í Vestmannaeyjum.
Töflu með öllum gjöldum og breytingum má sjá hér.
Samanburðurinn var gerður á gjöldum fyrir skóladagvistun og skólamat í 15 stærstu sveitarfélögum landsins. Til að einfalda samanburð milli sveitarfélaga miðar verðlagseftirlit ASÍ við mánaðargjald, 21 dag og vistun í þrjá tíma á dag eða 63 tíma í mánuði ásamt hressingu (x21) og hádegismat (x21). Ávaxtastund og mjólkuráskrift sem oft eru í boði eru ekki með í verðsamanburðinum. Ekki er tekið tillit til seðilgjalda eða annarra innheimtugjalda sem leggjast oft ofan á gjöldin.
Einungis er um verðsamanburð að ræða en ekki er lagt mat á gæði þjónustunnar.