Nýjast á Local Suðurnes

Aðstoðuðu við slökkvistarf í Borgarnesi

Um kl 21:30 í gærkvöldi barst Brunavörnum Suðurnesja  hjálparbeiðni frá Borgarnesi, vegna mikilla gróðurelda.
Tankbíll, dælubíll og eiturefnabíll, sem er með loftbanka til að fylla á reykköfunartæki, voru sendir á staðinn auk átta manna. Útkallið var langt, en menn voru að skila sér í hús til baka um klukkan sex að morgni.

Aðstæður á vettvangi voru erfiðar, og þurfti að leggja út töluvert af slöngum til að komast að eldinum.

Slökkvilið Borgarbyggðar og brunavarnir Suðurnesja undirrituðu samstarfssamning árið 2013, um samstarf við slökkvistörf og mengunaróhöpp.

Nú þegar líður á sumarið, geta orðið miklir þurrkar, og ber þar að varast að vera með eld í kringum þurran gróður.