Nýjast á Local Suðurnes

Leikmenn Grindavíkur fá 300.000 króna bónus fyrir að komast í Pepsí-deildina

Grindvíkingar tryggðu sér á dögunum sæti í Pepsí-deild karla í knattspyrnu, eftir fjögurra ára fjarveru. Eftir fallið árið 2012 var ákveðið að lækka laun leikmanna um 35% auk þess sem launatímabilið var stytt um þrjá mánuði. Bættur fjárhagur gerir það að verkum að hver leikmaðu mun fá 300.000 króna bónus fyrir að komast upp um deild á ný.

„Það er himinn og haf á milli launa hjá leikmönnum núna og þegar við vorum síðast í Pepsi-deildinni. Þegar við féllum settum við alla leikmenn á níu mánaða greiðslu og lækkuðum launin um 35 prósent. Við tókum upp kerfi sem ég kalla hlutaskiptakerfi sjómanna,“ segir Jónas Þórhallsson, í samtali við Vísi.is en að þessu sinni fá leikmenn bónus fyrir að komast upp um deild.

„Þetta er í kringum 5-6 milljónir sem dreifist á 18 leikmenn,“ segir Jónas Þórhallsson.

Ef farið er milliveginn og reiknað með að heildarupphæðin séu 5.500.000 krónur fær hver og einn leikmaður 300.000 króna bónus í sinn hlut fyrir að vinna sér aftur inn sæti í Pepsi-deildinni.