Nýjast á Local Suðurnes

Ný-Fiskur í sölumeðferð – Tekjur ársins áætlaðar um 3 milljarðar

Ný-Fiskur í Sandgerði, eitt fjögurra dótturfélaga Icelandic Group verður sett í sölumeðferð á næstunni, en stjórn Icelandic Group ákvað þetta á fundi sínum á dögunum. Fyrirhuguð sala er liður í stefnu Framtakssjóðs Íslands, sem á Icelandic Group að fullu, að einfalda rekstur félagsins.

Þetta kemur fram á vef Fiskifrétta. Ný-Fiskur sérhæfir sig í vinnslu og sölu á ferskum sjávarafurðum. Félagið nýtir um 6.000 tonn af hráefni árlega og eru tekjur fyrir árið 2016 áætlaðar um 3.000 m.kr. Stór hluti afurða er fluttur með flugi til viðskiptavina í Belgíu og annarra Evrópulanda. Ný-Fiskur rekur vel útbúna vinnslu að Hafnargötu 1 í Sandgerði.

Félagið gerir út línubátinn Von GK-113 í gegnum dótturfélag sitt, Útgerðarfélag Sandgerðis, sem er með um 800 þorskígildistonn af aflaheimildum í krókaaflamarkskerfinu. Hjá félaginu starfa um 70 manns og framkvæmdastjóri þess er Þorsteinn Magnússon.

Nánari upplýsingar er að finna á vef Íslandsbanka.