Nýjast á Local Suðurnes

Þriðjungur af launakostnaði Kadeco fer í þóknanir og hlunnindi til stjórnenda

Tæplega þriðjungur af launakostnaði Þróunarfélags Keflavíkurflugvallar, Kadeco, fyrir árið 2015 fer í þóknanir og hlunnindi til stjórnenda félagsins. Um 250 milljónir króna hafa fallið undir þennan lið í ársreikningum félagsins frá stofnun þess fyrir 10 árum, en um er að ræða greiðslur til framkvæmdarstjóra og stjórnarmanna félagsins.

kadeco-sigurdur

Sigurður Kári Kristjánsson er formaður stjórnar Kadeco og þiggur fyrir það rúmar þrjár milljónir króna á ári – Stjórnin fundar 6-7 sinnum á ári, klukkustund í senn.

Stjórnarformaður Kadeco er Sigurður Kári Kristjánsson og fær hann 270.000 krónur á mánuði fyrir störf sín sem formaður stjórnar, aðrir í stórn eru Fjóla Hrund Björnsdóttir og Sigrún Árnadóttir og fá þær hvor um sig 135.000 krónur á mánuði fyrir stjórnarsetuna, þremenningarnir fá því samtals tæplega 6,5 milljónir króna á ári fyrir störf sín hjá Kadeco. Stjórn Þróunarfélagsins kemur saman annan hvern mánuð og fundar í um klukkustund í senn.

Heildarlaunakostnaður félagsins á síðasta ári var rétt rúmar 90 milljónir króna og störfuðu 11-12 manns hjá félaginu, þar af voru um 30 milljónir króna, eða þriðjungur launakostnaðar notaður í þóknanir og hlunnindi til stjórnenda, sem eru fjórir, framkvæmdarstjóri og stjórnarmenn félagsins.

Kjartan Eiríksson, framkvæmdastjóri Kadeco, svaraði ekki fyrirspurn Suðurnes.net varðandi þennan lið í ársreikningum félagsins, en samkvæmt upplýsingum frá Ríkisendurskoðun þykir það góð regla að greina, í liðnum “þóknanir og hlunnindi stjórnenda”,  frá heildarfjárhæð launa og þóknana til stjórnar og framkvæmdastjóra fyrirtækja, því má gera ráð fyrir að um sé að ræða heildar launagreiðslur til þessara aðila.

Þróunarfélagið skilaði 146,6 milljóna króna hagnaði á síðasta ári samkvæmt rekstrarreikningi. Leigutekjur Kadeco voru á síðasta ári rétt rúmlega 200 milljónir króna og fékk félagið um 520 milljónir króna í þjónustugjöld samkvæmt samningi við ríkissjóð. Eigið fé samstæðunnar nam í árslok tæpum milljarið króna samkvæmt efnahagsreikningi.