Nýjast á Local Suðurnes

Mæla með veggjaldi – Lægsta gjald um Reykjanesbraut yrði 140 krónur aðra leið

Niðurstöður starfshóps samgönguráðherra um leiðir til að fjármagna vegaframkvæmdir voru kynntar á samgönguþingi, em haldið var í Hveragerði í gær. Í tillögum hópsins kemur fram að nauðsynlegt meðalgjald á hverri leið yrði 300-600 krónur, en um er að ræða stofnæðar frá höfuðborgarsvæðinu, Vesturlandsveg um Mosfellsbæ, Suðurlandsveg um Selfoss og Reykjanesbraut að flugstöð Leifs Eiríkssonar.

Niðurstaða starfshópsins er sú að nauðsynlegt sé að innheimta meðalgjald á hverri leið, um 300 til rétt rúmlega 600 krónur. Þannig yrði meðalgjaldið sambærilegt meðalgjaldi Hvalfjarðarganga og jafnvel allt að helmingi lægra. Þá bendir hópurinn á að með gjaldtöku af umferð ökutækja, veggjöldum, gæti framkvæmdunum verið lokið eftir um 8 ár, eða árið 2026.

Ekki var tekið sérstaklega fram hvert gjaldið yrði á Reykjanesbraut, en fram kom í máli Eyjólfs Árna Rafnssonar, formanns hópsins í viðtali við RÚV að lægsta gjald gæti orðið um 140 krónur aðra leið.

“Ef við værum að tala um að fara austur fyrir Selfoss, eða til Keflavíkur eða upp í Borgarnes væri þetta sem sagt 140 krónur aðra leiðina,“ sagði Eyjólfur Árni í samtali við Ríkisútvarpið.