Nýjast á Local Suðurnes

Náðu að lenda en farþegar fá ekki að fara frá borði

Myndin tengist fréttinni ekki

Ekki er leyfilegt að setja landgöngurana út á Keflavíkurflugvelli til að flytja farþega frá borði þegar vindur fer yfir 25 metra á sekúndu, en á annan tug flugvéla hafa lent á vellinum síðan klukkan níu í morgun og eru farþegar þeirra enn um borð.

Þetta staðfestir Guðjón Helgason, upplýsingafulltrúi Isavia í samtali við RÚV. Hann segir að farþegarnir fái að fara frá borði um leið og vind tekur að lægja. Tvær vélar til viðbótar eru í aðflugi og því hugsanlegt að farþegar þeirra véla fái heldur ekki að fara frá borði.

Talsverð röskun hefur orðið á millilandaflugi vegna veðurs í morgun og allt flug lá niðri til klukkan níu. Vonskuveður er á Keflavíkurflugvelli en samkvæmt vef Veðurstofunnar mældist snarpasta vindhviðan 37 metrar á sekúndu.